Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, telur að ganga hafi þurft lengra en gert var í þeim hertu sótt­varna­ráð­stöfunum sem tóku gildi á mið­nætti. Kári sagði þetta í hlað­varpi Viljans í dag en þar var Kári gestur Björns Inga Hrafns­sonar á­samt Sig­ríði Á. Ander­sen þing­konu Sjálf­stæðis­flokks.

Skynsamlegra að ganga lengra

Björn Ingi spurði Kára hvort þær að­gerðir sem kynntar voru í gær hefðu verið rétt­mætar og hvort þær hefðu gengið nógu langt.

Kári sagði að fyrst þyrfti að spyrja þeirrar spurningar hvert mark­miðið er í far­aldri eins og þeim sem nú geisar.

„Ef við ætlum að reyna að hemja út­breiðslu, ná þessu niður í það að vera fá til­felli greind á hverjum degi þá held ég að það hefði verið skyn­sam­legra að fara lengra,“ sagði Kári og bætti við að kostnaðurinn af þessum hömlum í sam­fé­laginu væri ansi mikill. Nefndi Kári að hann hefði til dæmis viljað sjá veitinga­staði loka og að strax yrði farið í að hólfa skólana niður.

„Ef þú ert bara að hugsa um þetta út frá sótt­varnar­sjónar­miðum og bara að reyna að koma í veg fyrir frekari dreifingu veirunnar, þá finnst vera farið svona tveimur til þremur skrefum of skammt.“

Virðist smitast meira

Kári benti á að far­aldurinn kæmi í sveiflum eins og dæmin undan­farna mánuði hafa sýnt. Stað­reyndin væri þó sú að þriðja bylgja far­aldursins væri verri en hinar tvær. „Það hafa fleiri smitast og veiran – þessi gerð sem er í sam­fé­laginu núna – virðist smitast meira heldur en þær gerðir sem voru hér í vor.“

Kári sagði það vissu­lega rétt að börn hafi minni til­hneigingu til að smitast af veirunni og smita frá sér.

„En þau smita samt og ef allt annað í sam­fé­laginu er orðið dá­lítið lokað er hætta á að börnin verði sá far­skjóti sem veiran notar til að komast frá manni til manns,“ sagði Kári sem tók þó sér­stak­lega fram að hann teldi gífur­lega mikil­vægt að halda skólum opnum.

„En núna, akkúrat á þessu augna­bliki þegar veiran hefur sprungið út, þá held ég að það sé þess virði að hafa til­tölu­lega stífar að­gerðir í mjög skamman tíma þannig að það sé hægt að koma börnunum inn í skólana sem allra fyrst.“