Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir hjarðó­næmi enn verðugt mark­mið þrátt fyrir um­mæli Andrew Pollard, prófessor við Ox­ford-há­­skóla í fjöl­miðlum í gær.

Pollard, sem þróaði bólu­efni við kórónu­veirunni í sam­starfi við AstraZene­ca, sagði að væri rangt að tala alltaf um hjarðó­næmi sem mark­mið þar sem veiran sí­fellt að breytast og ný af­brigði stöðugt að greinast.

Kári segir hins vegar að það eru búin að vera hátt í þúsund afbrigði af veirunni í umferð lengi og það sé ekkert nýtt. Bólusetningar koma ennþá í veg fyrir stór hópsmit og mikil veikindi. Þá mun veiran alltaf stökkbreytast en hingað til hafa bóluefnin virkað gegn öllum afbrigðum.

„Ég held við eigum að gleyma hjarðó­­næmi. Það er rangt hug­­tak vegna mis­munandi af­brigða veirunnar. Veiran mun finna leiðir til að smitast meðal bólu­­settra ein­stak­linga. Það sem við eigum að spyrja okkur að er hversu stór hluti fólks þarf að vera bólu­­sett til að koma í veg fyrir að fólk verði lagt inn á spítala eða jafn­vel stöðva út­breiðslu veirunnar alveg,“ sagði Pollard við spænska dag­blaðið El País í gær.

„Ég átta mig ekki al­menni­lega á því hvað maðurinn er að fara vegna þess að reynslan núna, til þessa dags, er sú að þessi bólu­efni verja okkur við öllum þeim af­brigðum sem við þekkjum,“ segir Kári.

„Þannig ég skil ekki hvað hefur rekið manninn til að láta þetta út úr sér. Við getum ekki úti­lokað neitt það eru alls­konar hlutir sem geta gerst. Það geta greni­tré farið að vaxa út úr enninu á öllu fólki á þessari heims­kringlu. Það eru alls­konar skrýtnir hlutir sem geta geta gerst en eins og stendur þá bendir reynslan til þess að þessi bólu­efni komi til með að nægja til að veita okkur hjarðó­næmi,“ bætir Kári við.

Kári sagðist ekki hafa lesið við­talið við Pollard í heild og reiknaði ekki með að gera það.

„Nei, ég kem svo sannar­lega ekki til í að eyða tíma mínum í að lesa eða hlusta á það,“ sagði Kári og bætti við að um­mæli hans væru „alveg gjör­sam­lega út í hött.“

Íslensk erfðagreining greindi þriðju bylgjuna í „tætlur“

Máli sínu til stuðnings nefnir Kári greiningu Ís­lenskrar erfða­greiningar á þriðju bylgju far­aldursins síðasta haust.

„Það voru tveir strákar hér í fyrir­tækinu hjá mér sem tóku þriðju bylgjuna og greindu hana í tætlur og settu saman módel og bendir til þess að ef 70% þjóðarinnar hefði verið bólu­sett á þessum tíma þá hefði það nægt til þess að koma í veg fyrir að bylgjan ætti sér stað,“ segir Kári.

„Undir þeim kring­um­stæðum sem þá voru, maður þarf að varast að al­hæfa út frá því, en þetta er gott dæmi til að sýna hvað þarf til til að koma í veg fyrir að litið hóp­smit verði eitt­hvað yfir­þyrmandi.“

Pollard telur að það þurfi að bólu­­setja mjög stórt hlut­­fall til þess að ná öllum sem gæti verið í hættu á því að veikjast al­var­­lega. Í við­talinu sagði hann það þurfi að bólu­setja alla eldri en fimm­tíu ára til að koma í veg fyrir 99% af inn­lögnum á spítala en þá myndi samt yngra fólk veikjast og fá veiruna.

Andrew Pollard, prófessor við Ox­ford-há­­skóla á blaðamannafundi bresku ríkisstjórnarinnar.
Ljósmynd/AFP

Það getur enginn spáð fyrir um framtíðina

Kári segir ljóst að auð­vitað mun fólk enn þá fá veiruna þar sem virkni bólu­efna er ekki 100 prósent.

„Í fyrsta lagi þá eru þessi bólu­efni ekki nema 80 til 90 prósent þannig 10 prósent af þjóðinni getur smitast samt og ef þau smitast geta þau smitað aðra en þetta er bara ekki reynslan,“ segir Kári og veltir fyrir sér hvers vegna Pollard myndi láta svona út úr sér.

„Er hann að predika þetta til að leggja á­herslu á að það sé mikil þörf fyrir fólk eins og hann í fram­tíðinni? Ég veit það ekki,“ segir Kári.

„Hann [Pollard] hefur verið mjög á­hrifa­ríkur vísinda­maður á þessu sviði en þegar það kemur að því að spá fyrir um fram­tíðina erum við öll á sama stað. Við höfum enga getu til þess. En reynslan af því sem er að gerast í dag er að þessi bólu­efni þau duga. Það eru hundruð ef ekki þúsundir af­brigði af veirunni þarna úti og búin að vera allan tímann,“ segir Kári.

„Að vera segja núna að það séu að koma fram ein­hver af­brigði það er bara „bullshit.“ Þessi veira heldur á­fram að stökk­breytast og það bara vill svo til að bólu­efnin sem við notum í dag dugar á alls­konar af­brigði af þessari veiru,“ segir Kári.

Hjarðónæmi ekki sérstaklega vel skilgreint.

Spurður um hvort hjarðó­næmi sé enn verðugt mark­mið, segir Kári hug­takið ekki nægi­lega vel skil­greint.

„Hjarðó­næmi er ekki sér­stak­lega vel skil­greint en í mínum huga er það þegar það stór hundraðs­hluti af þjóðinni er orðinn ó­næmur að far­aldurinn getur ekki náð fót­festu eða hóp­smitin sem eiga sér stað verða alltaf mjög lítil. Í mínum huga er það hjarðó­næmið sem við erum að stefna að,“ segir Kári.