Philippe Barbarin kardináli, erkibiskup af Lyon og æðsti Frakkinn innan kaþólsku kirkjunnar, var sakfelldur í gær fyrir að hafa hylmt yfir með brotum prestsins Bernards Preynat á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. AFP greindi frá. Barbarin fékk sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm en Preynat hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn ungum drengjum. Mál hans fer fyrir dóm síðar á árinu.

„Ég hef ákveðið að leita á fund föðurins og skila honum afsagnarbréfi mínu. Hann mun taka á móti mér innan fáeinna daga. Óháð mínum eigin örlögum vil ég tjá þolendum samúð mína,“ sagði Barbarin við fjölmiðla þegar niðurstaðan lá fyrir. Lögmaður hans sagði að dómnum yrði áfrýjað.

Kaþólska kirkjan stríðir nú við nýja öldu ofbeldismála, til að mynda í Ástralíu, Brasilíu, Síle og Bandaríkjunum. Í síðasta mánuði boðaði Frans páfi til fundar í Páfagarði um málið og líkti þar barnaníði við mannfórnir. Sagðist ætla að heyja allsherjarorrustu gegn ofbeldi innan kirkjunnar.