Starfsmaður í bandaríska sendiráðinu á Íslandi greindist með Covid-19 í síðustu viku. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Flutningar eru nú í undirbúningi, en sendiráðið verður flutt í nýtt húsnæði við Engjateig um helgina.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hafa allir starfsmenn verið kallaðir til vinnu á sunnudaginn til að aðstoða við flutning sendiráðsins. Herma heimildir blaðsins að Jeffrey Ross Gunter, sendiherra, hafi flýtt flutningum í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. Þær fara fram á þriðjudag.

Niðurstöður kosninganna geta haft mikil áhrif á framtíð Gunters í embætti sendiherra, því hafi Joe Biden sigur gegn Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem skipaði Gunter í embætti, getur verið að honum verði skipt út fyrir nýjan sendiherra. Sjálfur tísti Gunter um flutningana í dag og sagðist spenntur fyrir nýju húsnæði.

Kristinn Gilsdorf, upplýsingafulltrúi sendiráðsins, sagðist ekki kannast við málið aðspurður út í smit sendiráðinu þegar Fréttablaðið leitaði til hans. Fyrirspurninni var vísað til öryggisteymis sendiráðsins en hefur ekki verið svarað.

Umdeildur sendiherra

Áður hefur bandaríski miðillinn CBS gert vinnuumhverfi í sendiráðinu skil. Þannig greindi miðillinn frá því í sumar að Gunter hafi skapað erfiðar vinnuaðstæður fyrir starfsfólk. Sjö manns eru sagðir hafa gegnt stöðu staðgengils hans frá því að hann tók við.

Þá hefur Gunter verið sagður „vænisjúkur“ um öryggi sitt hér á landi. Hann hafi óskað eftir því að fá sérstakt leyfi frá íslenskum yfirvöldum til að bera byssu, að því er CBS hafði eftir fjölda ónefndra stjórnarerindreka, embættismönnum og fleirum sem sagðir voru þekkja til málsins.

Hann vildi auk þess fá brynvarðan bíl og vesti sem varið geti hann fyrir hnífsstungum. Í kjölfarið hófu Bandaríkjamenn búsettir á Íslandi formlega undirskriftarsöfnun þar sem skorað var á Trump að fjarlæga Gunter úr embætti.

Þá vakti það litla lukku í júlí þegar Gunter tísti um að saman gætu Íslendingar og Bandaríkjamenn sigrast á „ósýnilegu Kínaveirunni,“ en þar átti hann við Sars-CoV-2 vírusinn sem veldur COVID-19.