„Við verðum að átta okkur á fyrir­heitum Ameríku með því treysta guði, sam­eina fram­tíðar­sýn okkar og byggja upp fram­tíðina. Ég býð mig fram til for­seta Banda­ríkjanna! #2020VISION“ Svo hljóðar til­kynning tón­listar­mannsins Kanye West um for­seta­fram­boð sitt á Twitter.

Fjórir mánuðir til stefnu

Kanye birti yfir­lýsinguna seint í gær­kvöldi og ekki liggja fyrir neinar frekari upp­lýsingar um fram­boð hans. Um fjórir mánuðir eru til kosninga í Banda­ríkjunum og ó­víst hvort rapparinn hafi skilað inn gögnum sem fylgja for­seta­fram­boði.

Fram­boðs­yfir­lýsingin kemur að­dá­endum Kanye mögu­lega ekki á ó­vart en hann greindi frá því á síðasta ári að einn daginn myndi hann setjast í for­seta­stólinn.

Ekki er ljóst hvar nafn Kanye mun birtast á kjör­seðlinum á­samt Donald Trump og Joe Biden en fram­bjóð­endur utan stóru flokkana tveggja, Demó­krata og Repúblikana, hljóta yfir­leitt lítið fylgi.

Ó­væntur stuðningur

Þrátt fyrir það hefur tíst tón­listar­mannsins hlotið mikil við­brögð og var frum­kvöðullinn Elon Musk einn þeirra fyrstu til að lýsa yfir stuðningi sínum. Þá hafa nærri 400 þúsund manns endur­deilt tístinu.

Ein­hverjir að­dá­endur rapparans túlka til­kynninguna sem boð um nýja plötu en ör­fáir dagar eru síðan Kanye gaf út nýtt lag og mynd­band um ras­isma í Banda­ríkjunum.