Sigurður G. Guð­jóns­son hæsta­réttar­lög­maður veltir fyrir sér hvort hann muni ein­hvern tíma sjá kærurnar þrjár gegn sér sem fréttir voru fluttar af fyrr í dag. Sigurður furðar sig á því að hafa frétt af þeim í gegnum RÚV í nýrri Face­book færslu.

Fram kom nú síð­degis í frétt miðilsins að Þór­hildur Gyða Arnars­dóttir hafi kært lög­manninn lög­­reglunnar, Per­­sónu­verndar og úr­­­skurðar­­nefndar Lög­manna­­fé­lags Ís­lands.

„Ég hef ekki séð kærurnar. Sér­kenni­leg eru þau hins vegar þesdi vinnu­brögð hins hugsandi lög­manns að birta kærurnar fyrst fyrir frétta­mönnum Ríki­smiðilsins. Þeir koma ekki fram fyrir mína hönd. Þá hefur það heldur aldrei verið talin góð latína hvað rann­sókn saka­mála varðar að upp­lýsa opin­ber­lega um sakar­giftir. Slíkt getur spillt rann­sóknar hags­munum,“ skrifar Sigurður.

Segir vonandi ekki sak­næmt að þekkja föður Kol­beins

Sigurður G. upp­lýsir svo um það í færslunni að hann hafi þekkt og starfað fyrir Sig­þór Sigur­jóns­son, föður Kol­beins, frá því í lok áttunda ára­tug síðustu aldar.

„Það er vonandi ekki sak­næmt og ó­lög­mætt. Lög­maðurinn ætti líka að vita að kæru hans á hendur mér til lög­reglu fylgir að ég fæ réttar­stöðu sak­bornings og þarf ekki að svara. Get hins vegar ef ég nenni svarað Per­sónu­vernd og Lög­manna­fé­lagi Ís­lands.“

Sigurður veltir fyrir sér hvort lög­reglan vilji gera hús­leit til að taka af­rit af tölvu­póstum og gögnum skrif­stoffunnar. „Þar er ekkert að finna enda fékk ég skýrslur vegna kæru Þór­hildar Örnu af­hentar í ljós­rit.
Það verður því eftir sem áður sveipað hjúpi leyndarinnar hver af­henti mér skýrslurnar í kæru­máli Þór­hildar Örnu.“

Segir hvorki Per­sónu­vernd né Lög­manna­fé­lagið geti hafið rann­sókn

Þá bendir Sigurður á að nafni sinn, Sigurður Örn Hilmars­son sitji í for­manns­stóli Lög­manna­fé­lagsins. „ Sú stofa er ein helsta mann­réttinda lög­manns­stofa landsins,“ skrifar hann.

Hann rifjar upp að ekkert hafi orðið úr rann­sókn þess fé­lags á meintu broti lög­manns á al­mennum hegningar­lögum fyrir tveimur árum síðan. „Sem betur fer varð ekkert úr því frum­hlaupi þökk sé einum af þá­verandi stjórnar­mönnum í fé­laginu sem benti á að við byggjum í réttar­ríki og rann­sókn saka­mála væri á for­ræði lög­reglu og á­kvörðun um á­kæru á hendi á­kæru­valds.“