Yfir hundrað íbúar og velunnarar sveitarfélags Hornafjarðar fordæma yfirlýsingu sem bæjarstjórnin sendi frá sér í gær vegna fjölmiðlaumfjöllunnar í tengslum við nýlegt dómsmál. Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar segist harma málið.

Íbúarnir fordæma aðgerðarleysi bæjarstjórnar í kjölfar málsins sem varðar fyrrum starfsfólk sveitarfélagsins og hafa efnt til undirskriftarsöfnunar þar sem þess er krafist að verkferlar sveitarfélagsins í kynferðisafbrotamálum verði skoðaðir.

„Mér finnst þetta afskaplega leitt. Í yfirlýsingunni vorum við að reyna koma staðreyndum á hreint því það hafði verið á reiki í fjölmiðlum,“ segir Ásgrímur Ingólfsson forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar.

Kona í stjórnunarstöðu sveitarfélagsins á Hornafirði var nýlega sakfelld í héraðsdómi fyrir að hafa brotið kynferðislega á samstarfskonu sinni í vinnuferð í Reykjavík. Gerandinn var dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða 450 þúsund krónur í skaðabætur auk málskostnaðar.

Konurnar bjuggu báðar og störfuðu hjá sveitarfélaginu og eftir atvikið hélt gerandinn störfum en þolandinn fór ekki aftur til starfa en hún hafði skömmu fyrir atvikið sagt upp störfum.

Þolandinn flutti frá sveitarfélaginu eftir atvikið.

Enginn stuðningur við þolanda

Forsvarsmaður undirskriftarsöfnunarinnar segir það með öllu óskiljanlegt að árið 2021 sé stuðningur við þolanda frá bæjaryfirvöldum enginn.

„Kannski hefur vantað í yfirlýsinguna að við fordæmum ofbeldi, ég held að allir gera það. Ég hélt það þyrfti ekki að koma sérstaklega fram,“ segir Ásgrímur. Hann bætir við að farið verði yfir verkferla í kjölfarið til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. „Það er það sem við getum tekið út úr þessu og lært af þessu.“

Gerandi hélt starfinu

Í yfirlýsingu bæjarstjórnar segir meðal annars að fyrst þegar sveitarfélaginu barst tilkynning vegna málsins hafi verið ágreiningur um málsatvik. Lögreglurannsókn hafi því verið hafin til að freista þess að leiða í ljós hvað hefði gerst.

„Í ljósi þess að brotaþoli var ekki undirmaður umrædds stjórnanda, starfaði ekki með honum dags daglega, hafði þegar sagt starfi sínu lausu og fengið vilyrði fyrir að vinna uppsagnarfrest sinn í fjarvinnu, leit sveitarfélagið svo á að ekki væri tilefni til frekari aðgerða af hálfu þess meðan á rannsókn lögreglu stæði,“ segir í yfirlýsingunni.

Síðan þegar ákæruvald hafi tekið ákvörðun um að ákæra í málinu í mars 2021 hafi umræddur stjórnandi, gerandinn, færst til annars vinnuveitanda og því ekki lengur starfsmaður sveitarfélagsins. Loks þegar dómur féll í október 2021 hafi því ekki verið neinar forsendur til aðgerða af hálfu sveitarfélagsins þar sem báðir málsaðilar höfðu báðir látið af störfum hjá sveitarfélaginu.