„Þetta er stærsta inn­brot í Ís­lands­sögunni, sem gerir þetta auð­vitað að mínu stærsta inn­broti líka, segir Sindri Þór Stefáns­son, dæmdur höfuð­paur Bitcoin málsins í við­tali við banda­ríska tíma­ritið Vanityfair.

Sindri hlaut í fjögurra og hálfs­árs fangelsi í fyrra fyrir þátt sinn í málinu sem hlýtur að teljast með æsi­legustu saka­mála síðari tíma á Ís­landi. Hundruð tölva hafa aldrei komið í leitirnar, sex sak­borningar sátu á saka­manna­bekk í málinu, höfuð­paurinn flúði úr gæslu­varð­haldi og flaug af landi brott í sömu vél og for­sætis­ráð­herra.

Verð­­mæti tölvanna sem stolið var er talið hlaupa á hundruðum milljóna en vélarnar voru sér­­hannaðar til að grafa eftir bitcoin. Vélunum var stolið úr gagna­verum bæði í Reykja­nes­bæ og Borgar­byggð í þremur inn­brotum sem framin voru á tíma­bilinu desember 2017 til síðari hluta janúar 2018V

Rann­­sókn málsins hefur verið um­­fangs­­mikil og leitin að hinum stolnu tölvum teygt sig alla leið til Kína þar sem 600 tölvur voru í ó­­skilum fyrr í vor. Sú leit hefur þó enn engan árangur borið og tölvunar enn ó­­fundnar.

Hafi verið ó­þægur krakki

Í við­talinu lýsir Sindri æsku sinni á Akur­eyri, þar sem hann hóf af­brota­feril snemma á ung­lings­aldri. Hann gengst við því að hafa verið ó­þægur krakki. Sex ára gamlir kynntust þeir Haf­þór Logi Hlyns­son.

Sindri lýsir ung­lings­árum sínum og fyrstu kynnum af fíkni­efnum og segist hafa verið byrjaður að rækta kanna­bis um tví­tugt og saka­skráin fljót­lega farin að telja yfir 200 smá­glæpi. Hann af­plánaði tíu mánuði í fangelsi með Haf­þóri vini sínum og tókst að snúa lífi sínu á réttan kjöl.

„Mér var að mis­takast við að sjá um fjöl­skylduna mína,“ segir hann. „Ég þurfti bara meira.“ Í um­fjöllun Vanity Fair er meðal annars rifjað upp að sjö­menningarnir héldu því fram að annar ó­nefndur aðili hefði verið við­riðinn málið, svo­kallaður „Herra X.“ Aldrei hefur komið fram hver það er og sagði Sindri að hann gæti ekki tjáð sig um það, það myndi hafa af­leiðingar.

Segir Sindri að um­ræddur maður hafi lofað honum fimm­tán prósentum af hagnaðinum af þjófnaðinum. „Ég var til­búinn til að fara í fangelsi fyrir þetta, þetta var ein­stakt tæki­færi.“

„Kannski veit ég hvar þær eru, kannski veit ég það ekki“

Þessi ó­nefndi aðili, Herra X, hafi þá sett saman hópinn, sem hafi stofnað Face­book síðu sem þeir nefndu Föru­neytið með vísan til Hringa­dróttins­sögu. Þá er því lýst hvernig liðs­mennirnir voru með gælu­nöfn. Haf­þór Logi Hlyns­son hafi til að mynda verið kallaður Haffi bleiki.

Þá er vitnað í orð Ólafs Helga Kjartans­sonar, lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum, sem tekur fram í sam­tali við miðilinn að hann gefi lítið fyrir orð Sindra um dular­fullan fjár­festi. „Margir trúa á álfa og tröll. Ég er ekki einn þeirra.“

„Kannski hafa tölvurnar verið í gangi allan tímann,“ segir Sindri meðal annars við blaða­mann banda­ríska miðilsins. „Kannski veit ég hvar þær eru, kannski veit ég það ekki.“

Að­spurður hvaða ein­kunn hann myndi gefa Bitcoin ráninu væri gengið út frá því að hann væri „Herra X,“ hinn ó­nefndi aðili sem sjö­menningarnir hafa sagt tengjast málinu, segir Sindri:

„Meistara­verk,“ segir hann áður en hann passar sig. „Ég vildi bara að ég hefði gert þetta.“