Banda­ríkja­for­seti Donald Trump neitar að hafa nokkurn tíma beðið starfs­lið sitt um að hafa sam­band við fylkis­stjóra Suður-Dakóta til að kanna mögu­leikann á því að bæta and­liti Trumps á Mount Rus­hmor­e. Hann segir þó að hug­myndin hljómi vel.

The New York Times hafði það eftir heimildar­manni sínum innan Repúblikana­flokksins nú um helgina að starfs­menn Hvíta hússins hefðu sett sig í sam­band við ríkis­stjórann, Kristi Noem, og borið upp spurninguna: „Hvað þarf að gera til að bæta við öðrum for­seta á Mount Rus­hmor­e?“

„Þetta eru fals­fréttir hjá hinu mis­heppnaða New York Times og CNN sem er með lé­legt á­horf,“ sagði Trump á Twitter. „Ég hef aldrei borið þetta upp þó að þetta hljómi eins og virki­lega góð hug­mynd fyrir mér, miðað við allt sem ég hef á­orkað á fyrsta þremur og hálfa árinu mínu sem for­seti, mögu­lega meira en nokkur annar for­seti hefur gert.“

Þá hefur verið greint frá því að ríkis­stjórinn hafi gefið Trump gjöf af rúm­lega eins metra hárri eftir­líkingu af minnis­varðanum á Mount Rus­hmor­e þar sem var búið að bæta við höfði for­setans. Gjöfina á hún að hafa gefið honum þegar hann heim­sótti ríkið ný­lega.

Í við­tali árið 2018 greindi Noem frá sam­tali hennar við for­setann. Hún sagði þá við hann að hann ætti að heim­sækja Suður-Dakóta oftar, þar væri til dæmis Mount Rus­hmor­e. Hún segir for­setann þá hafa svarað: „Veistu að það er draumur minn að setja and­lit mitt á Mount Rus­hmor­e?“

„Ég fór þá að hlæja,“ sagði Noem í við­talinu. „En hann hló ekki. Hann var alveg al­var­legur.“

For­setarnir fjórir sem prýða minnis­varðann eru Geor­ge Was­hington, Thomas Jef­fer­son, Abra­ham Lincoln og Ted­dyRoose­velt. Þeir voru valdir árið 1920 og lauk gerð verksins árið 1941.