Félag 365 miðla, eiganda Torgs ehf., útgefanda Fréttablaðsins, hefur fengið Kviku banka til að kanna áhuga mögulegra kaupenda á Torgi, vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti við sölu á eignum 365 til Sýnar.
365 á tæplega 11 prósenta hlut í Sýn. Samkeppniseftirlitið setti þau skilyrði að innan tiltekins tíma myndi 365 þurfa að selja hlut sinn í Torgi eða Sýn. 365 hagnaðist um 907 milljónir króna fyrir skatt 2017.
„Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort selja eigi hlut 365 í Torgi, eða í Sýn hf.,“ segir í tilkynningu frá Ingibjörgu S. Pálmadóttur, forstjóra Torgs. Hins vegar liggi fyrir að lengri tíma muni taka að setja óskráð félag í slíkt ferli og því sé þetta skref stigið nú.
„Engar breytingar verða á daglegum rekstri Torgs eða Fréttablaðsins með þessu,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Torg standsetur nú nýjar höfuðstöðvar sínar í miðborginni, nánar tiltekið við Hafnartorg.