Möguleikar til beinna viðskipta með heimaslátrað kjöt var umræðuefni fundar á vegum Matís sem haldinn var þann 5. júlí í Miðgarði í Skagafirði. Bændur hafa margir hverjir mikinn áhuga á að stunda bein viðskipti með heimaslátrað kjöt. Fundurinn var vel sóttur og enn fleiri fylgdust með beinni útsendingu frá fundinum á netinu. Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, segir í samtali við Fréttablaðið að sala á heimaslátruðu sé ekki heimil í dag og að svokölluð örsláturhús gætu verið lausn fyrir þá bændur sem vilja að öll stig kjötframleiðslunnar eigi sér stað á býlinu.

„Það vantar þennan möguleika til að geta byggt upp nýsköpun og byggðina í landinu, þá vantar þennan möguleika fyrir bændur að geta séð um þetta sjálfir. En þá viljum við ekki tala um heimaslátrun heldur að það verði sett upp svokölluð örsláturhús sem er í rauninni bara að bóndinn er með aðstöðu hjá sér sem er eftirlitsskyld en getur slátrað eigin búfénaði og haldið svo áfram í kjötvinnslu og selt beint til neytandans,“ segir Hrönn.

Heilsa og öryggi neytenda í fyrirrúmi

Á fundinum kom fram að við breytingar á reglugerðum verði að hafa heilsu og öryggi neytenda í fyrirrúmi. Þrátt fyrir að fjölmörg tækifæri felist í því að leyfa sölu á heimaslátruðum afurðum verði að rannsaka hver áhættan sé og hvað sé hægt að gera til að lágmarka hana. Áhættumat yrði fyrsta skrefið í að sníða kerfi sem leyfði sölu afurða af heimaslátruðu sem myndi byggja á raunhæfu eftirliti opinberra aðila, rekjanleika og góðri þjálfun bænda. 

Hrönn segir að áhættumat sé nauðsynlegur liður til að laga regluverkið eftir þörfum bænda og neytanda. „Mér skilst að sláturkostnaður hafi hækkað í fyrra þannig að lítið skilar sér til bóndans og ef hann ætlar að taka heim skrokka til að halda áfram vinnslu hjá sér þá svari það ekki kostnaði. En til þess að það sé mögulegt þarf að breyta reglugerðum og breyta aðstæðum hjá bændum en það er líka mikilvægt að framkvæma ákveðið áhættumat til þess að veita regluverkinu þennan sveigjanleika til að laga það eftir þörfum bænda og neytenda.“

Í dag verður aflífun búfénaðar að fara fram í sláturhúsum, en bændum er heimilt að setja upp litlar kjötvinnslur til þess að vinna afurðir úr eigin búfénaði. Áhugi neytenda á afurðum beint frá býli er sífellt að aukast og víða erlendis gefst fólki kostur á að kaupa kjöt beint af býli þar sem öll stig framleiðslunnar eiga sér stað á býlinu.

Innleiðing áhættumats gæti veitt tækifæri 

Innleiðing áhættumats með skipun áhættumatsnefndar gæti því veitt bændum tækifæri til að stunda bein viðskipti með kjötafurðir til íslenskra neytenda og ferðamanna beint frá býli.

„Atli Már Traustason, bóndi að Hofdölum, benti á að það þyrfti í rauninni þrjár tegundir af sláturhúsum, það þyrftu að vera þessi stóru sem eru í dag, lítið handverkssláturhús sem þjónustar til dæmis veitingastaði og síðan minnsta gerðin sem væri þá slátrun bænda á eigin búfénaði,“ segir Hrönn.

Hrönn bendir á að með því að heimila bændum að selja afurðir af heimaslátruðu myndi virðisaukinn og hagnaðurinn af framleiðslunni renna beint til bóndans milliliðalaust. „Það voru tveir bændur með framsögu sem vildu koma því á framfæri að afkoman væri orðin svo slæm að með þessu áframhaldi muni fjárbúskapur líklega leggjast af. Sláturverð er orðið það hátt hjá afurðastöðvunum að það er orðið mjög erfitt fyrir bændur að gera eitt eða neitt,“ segir hún að lokum.

Á meðal framsögumanna voru Andreas Hensel, forseti þýsku áhættumatsstofnunarinnar BfR, Freydís Dana Sigurðardóttir, fagssviðsstjóri búfjáreftirlits hjá Matvælastofnun, Atli Már Traustason, bóndi að Hofdölum og Þröstur Heiðar Erlingsson, bóndi í Birkihlíð.

Í kjölfar fundarins ákváðu starfsmenn Matís og Matvælastofnunar að vinna sameiginlega að framgangi málsins.