Ekki er útilokað að gerð verði skaðabótakrafa á hendur fyrrverandi skiptastjóra þrotabús félagsins Þóroddsstaða ehf. vegna þess hvernig atvikum var háttað við sölu helstu eignar búsins. Ágreiningur um störf skiptastjórans rataði fyrir dómstóla en honum var vikið úr starfi skiptastjóra með úrskurði héraðsdóms í fyrra en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi nokkru síðar. Skiptastjórinn ákvað engu að síður að búinu væri betur borgið með nýjum skiptastjóra.

Nýr skiptastjóri þrotabús Þóroddsstaða ehf. hefur gert kröfu um að dómkvaddir verði matsmenn til að leggja mat á raunverulegt verðmæti og þar með hæfilegt söluverð fyrir helstu eign búsins, fasteignina Þóroddsstaði sem stendur við Skógarhlíð í Reykjavík.

Kröfuhöfum búsins varð uppsigað við fyrri skiptastjóra búsins á síðari hluta síðasta árs og var honum vikið úr starfi skiptastjóra með úrskurði héraðsdóms í nóvember í fyrra. Ástæða brottvikningarinnar var framferði hans í tengslum við sölu á Þóroddsstöðum.

Í úrskurði héraðsdóms er rakið að áður en til gjaldþrotaskipta kom hafi eignin verið til sölu hjá fasteignasölunni Mikluborg sem fengið hafi 200 milljóna kauptilboð í eignina en salan ekki gengið í gegn þar sem kaupandinn gat ekki fjármagnað kaupin.

Eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og Lárus Sigurður Lárusson skipaður skiptastjóri, hafi húsið hins vegar verið tekið úr sölu hjá Mikluborg en selt stuttu síðar til sama kaupanda í gegnum fasteignasölu eiginmanns og samstarfsmanns skiptastjórans, Sævars Þórs Jónssonar. Kaupverðið var 70 milljónum lægra en fyrra tilboð, eða 130 milljónir.

Dregin var sú ályktun í úrskurðinum að hagsmunir Lárusar sjálfs hefðu ráðið framangreindri ákvörðun, en hún hefði tryggt að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans.

Lárus kærði úrskurðinn til Landsréttar sem taldi hann ekki hafa brotið gegn skyldum sínum sem skiptastjóri þótt ýmislegt hefði mátt betur fara. „Verður ekki talið eins og atvikum máls þessa er háttað að framferði sóknaraðila hafi verið slíkt að efni hafi staðið til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi skiptastjóra,“ sagði í úrskurði Landsréttar.

Lárus ákvað engu að síður að best færi á því að annar yrði fenginn til að skipta búinu, vegna trúnaðarbrests sem orðið hefði milli hans og kröfuhafa búsins. Það þjónaði því best hagsmunum búsins að annar yrði fenginn til að skipta því.

Var hæstaréttarlögmaðurinn Gísli Guðni Hall skipaður skiptastjóri yfir búið.

„Ég vil sem skiptastjóri fá mat á því hvað hafi verið hæfilegt söluverð með vísan til þess hvernig staðið var að sölunni,“ segir Gísli. Um sé að ræða nauðsynlegt skref til að geta metið hvort grundvöllur sé til einhverrar kröfugerðar á hendur skiptastjóranum fyrrverandi og þeirri lögmannsstofu og fasteignasölu sem hann starfar á. Eru þeir matsþolar í matsbeiðninni ásamt ábyrgðartryggjanda þeirra, Sjóvá almennum tryggingum hf.