Kanadískur ríkis­borgari hefur verið dæmdur til dauða í kín­versku borginni Guangz­hou fyrir fram­leiðslu á keta­míni en að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa tveir aðrir Kanada­menn verið dæmdir til dauða ný­lega í Kína.

Sam­kvæmt til­kynningu frá dóms­mála­yfir­völdum í borginni var maðurinn, Xu Wei­hong, fundinn sekur og dæmdur til dauða vegna málsins en meintur vit­orðs­maður hans, Wen Guanxiong, var dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi.

Engar frekari upp­lýsingar um málið voru veittar en sam­kvæmt kín­verskum frétta­miðlum hófu mennirnir fram­leiðslu á keta­míni í októ­ber 2016 og lagði lög­regla hald á 120 kíló af efninu, meðal annars á heimili Xu.

Neita að dómurinn tengist togstreitu milli ríkjanna

Sam­skipti milli Kína og Kanada hafa verið stirð síðustu ár eftir að Meng Wanz­hou, fjár­mála­stjóri tækni­fyrir­tækisins Huwei, var hand­tekin í Vancou­ver í Kandada í desember 2018 en yfir­völd í Kína á­kvað í kjöl­farið að setja ýmsar við­skipta­hömlur á kanadískar vörur. Þá voru tveir Kanadamenn handteknir og ákærðir fyrir njósnir.

Tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytis Kína, Wang Wen­bin, segir aftur á móti engin tengsl vera á milli dómsins og sam­skipta ríkjanna.

„Dauða­dómar fyrir fíkni­efna­brot sem eru sér­stak­lega hættu­leg munu hjálpa til við að koma í veg fyrir slíka glæpi,“ sagði Weng um málið.