Kanadíski at­hafna­maðurinn Michael Spavor hefur verið dæmdur í ellefu ára fangelsi í Kína fyrir njósnir en dómur var kveðinn upp í málinu í kín­versku borginni Dandong í dag. Fyrstu réttar­höld í máli Spavor, síðast­liðinn mars, enduðu án dóms í málinu en hann liggur nú fyrir.

Dominic Barton, sendi­herra Kanada í Kína, var við­staddur þegar dómurinn var kveðinn upp í morgun en hann sagðist for­dæma dóminn og sagði enn mögu­leika á á­frýjun. Spavor hefur verið í haldi frá árinu 2018 en hann var hand­tekinn á­samt fyrr­verandi erind­rekanum Michael Kovrig, sem bíður nú dóms í sínu máli.

Spavor og Kovrig voru hand­teknir nokkrum dögum eftir að kanadísk yfir­völd hand­tóku Meng Wanzou, fjár­mála­stjóra kín­verska tækni­risans Huawei. Meng berst nú við fram­sals­beiðni frá Banda­ríkjunum vegna fjár­svika. Hún er nú laus gegn tryggingu í Kanada og er bú­sett í Vancou­ver.

Pólitísk togstreita milli ríkjanna

Dómurinn er til marks um versnandi sam­skipti Kína og Kanada en Kanada hefur sakað kín­versk yfir­völd um að nota mál Spavor og Kovrig í pólitískum til­gangi. Justin Tru­deau, for­sætis­ráð­herra Kanada, sagði í yfir­lýsingu í dag að dómurinn í máli Spavor hafi verið „full­kom­lega ó­á­sættan­legur og ó­rétt­látur.“

„Dómurinn í máli Spavor kemur eftir rúm­lega tvö og hálft ár af ó­rök­studdri varð­halds­vist, skort á gagn­sýni í gegnum laga­ferlið, og réttar­höldum sem upp­fylltu ekki einu sinni lág­marks­kröfur sem al­þjóða­lög kveða á um,“ sagði Tru­deau í yfir­lýsingu um málið.

Dómurinn kemur að­eins einum degi eftir að kín­verskir dóm­stólar neituðu beiðni Kanada­mannsins Robert Lloyd Schellen­berg um á­frýjun í hans máli en Schellen­berg var árið 2019 dæmdur til dauða fyrir fíkni­efna­smygl. Hann hafði upp­runa­lega verið dæmdur í 15 ára fangelsi en dómur hans þyngdur eftir hand­töku Meng.