Samkvæmtupplýsingum frá tælenskum lögregluyfirvöldum íhuga nú nokkur ríki, þar á meðal Kanada og Ástralía, að taka við sádí-arabísku konunni Rahaf Mohammed al-Qunun.

Mál hennar vakti heimsathygli í byrjun vikunnar þegar hún læsti sig inni á hótelherbergi á flugvellinum í Bangkok í Tælandi til þess að koma í veg fyrir að hún yrði send til baka til fjölskyldu sinnar, sem hún segir að ætli að myrða sig vegna þess að hún sneri bakinu við Íslamstrú. 

Þá kemur einnig fram í upplýsingum tælensku lögreglunnar að flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem tók við máli Rahaf í byrjun vikunnar, hafi flýtt málsmeðferð hennar en ekkert hefur verið gefið upp um hvenær ferlinu lýkur.

Líkt og áður segir vakti mál Rahaf heimsathygli en hún nýtti sér samfélagsmiðla til þess að vekja athygli á máli sínu þegar að vegabréf hennar var tekið af sádí-arabískum erindreka við komuna til Tælands. Rahaf hefur ítrekað sárbeðið yfirvöld í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu um að veita sér hæli.