Kamilla S. Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, segir okkur standa í stað varðandi á­stand Co­vid-19 far­aldursins. Hún segir mikil­vægast að hér hafi ekki orðið veru­leg upp­sveifla í fjölda smita og þakka megi fyrir það.

„Við metum það svo að við stöndum í stað. Þetta eru mjög svipaðar tölur nú um helgina og við sáum um verslunar­manna­helgina. Það hafa ekki verið neinar stór­vægi­legar sviptingar sem er það sem er al­mikil­vægast, það hefur ekki orðið nein veru­leg upp­sveifla. Það er það sem við þurfum að horfa á og þakka fyrir. Það má að ein­hverju leyti þakka því að við erum með þær tak­markanir sem við erum nú með í gildi,“ segir Kamilla.

„Við vitum að það hafa verið bið­raðir og að­gengið að sýna­tökunum hefur ekki alltaf verið eins og best verður á kosið. Það er alltaf hluti af því sem er skýringin fyrir því að smit­fjöldi dettur niður um helgar, sýna­tökur. Við túlkum tölurnar fram á mið­viku­dag með á­kveðinni var­úð þess vegna, við erum svo­lítið að vinna eftir á með það. Það gildir enn­þá. Það er engin á­stæða til ofur-svart­sýni miðað við það að nú er komin vika frá verslunar­manna­helgi og það hefur ekki orðið nein veru­leg sprenging. Auk þess virðist vera að maður sjái á­hrifin af Delta-út­breiðslu hraðar en með fyrri af­brigði. Við megum vera nokkuð von­góð um að við séum farin að sjá á­hrifin af verslunar­manna­helginni nú þegar.“

Langar raðir hafa myndast við sýna­töku Heilsu­gæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu.
Fréttablaðið/Ernir

Að­spurð um það hvernig ná eigi til þess hóps fólks sem getur fengið en ekki hefur þegið bólu­setningu segir Kamilla spurninguna góða.

„Þetta er mál sem við erum að skoða. Við erum að reyna að átta okkur á því betur hverjir þetta eru, við erum með á­kveðin tæki sem sótt­varna­læknir hefur notað um ára­bil, sem eru samt ekki galla­laus og eru þung í notkun. Við erum að skoða hvort við höfum aðrar leiðir til að finna út hverjir það eru sem ættu að hafa fengið boð í bólu­setningu en af ein­hverjum á­stæðum eru ekki búnir að þiggja það. Sjá hvort það er eitt­hvað sem ein­staklingarnir virðast eiga sam­eigin­legt, ein­hver á­kveðinn aldurs­hópur, ein­hverjir á­kveðnir mál­hópar - þar sem það eru það margir er­lendir borgarar sem búa hér og eiga rétt á bólu­setningu hér. Við vorum með á­kveðna vinnu til að reyna að passa að aðrir en ís­lensku­mælandi fái upp­lýsingarnar um að þeir eigi rétt á bólu­setningu hér, hún sé ó­keypis og þar fram eftir götunum,“ segir hún.

Ból­u­setn­ing í Laug­ar­dals­höll.
Fréttablaðið/Ernir

„Það var lagt svo­lítið mikið á herðar vinnu­veit­enda að dreifa þessum upp­lýsingum. Við þurfum að skoða að finna aðrar leiðir, þó að við höfum alltaf verið opin fyrir ýmsum leiðum. Það er alltaf gott að fá á­bendingar um leiðir sem fólk telur að geti nýst. Þetta er eitt­hvað sem við þurfum að horfa á frá öllum hliðum og þiggja allar til­lögur sem að okkur berast og taka þær til at­hugunar, hvort þær geti nýst til að ná til þeirra sem ekki hugsa sér að af­þakka bólu­setningu heldur átta sig ekki á því hvernig þeir eiga að bera sig að við að fá bólu­setninguna.“

Einnig sé nokkur fjöldi fólks sem sé með lög­heimili skráð hér en er ekki á landinu. „Við vitum að það er tölu­vert af fólki sem er með lög­heimili hér en er samt ekki statt hér dags dag­lega, náms­menn er­lendis, út­sendarar utan­ríkis­þjónustunnar og þess háttar. Við erum að reyna að safna eins miklu af þessum upp­lýsingum og við getum til að átta okkur á því betur hver er sá hópur sem er ekki bólu­settur.“

Hvernig eiga þau sem ekki geta fengið bólu­setningu að taka þátt í sam­fé­laginu?

„Við þurfum að hugsa það öll saman, hvernig er hægt að gera það fyrst að við getum ekki fengið hjarðó­næmi með bólu­efnunum sem við eigum núna. Fyrst að það er þetta stór hópur sem er ekki hættandi á að verði út­settir - ef það er ein­hver leið til að koma í veg fyrir það, hvernig gerum við það. Þetta er ekki ein­falt. Þetta getur verið blanda af því að bólu­setja alla sem geta þegið bólu­setninguna, eins ná­lægt öllum og við komumst. Þó að við lendum ekki í mjög ströngum sam­komu­tak­mörkunum þá er það samt þannig að ef við getum fundið leiðir til að gera skemmti­lega hluti í minni hópum, þá geta þeir sem eru ekki bólu­settir verið með með til­tölu­lega lítilli á­hættu en ef við höldum okkur fast við að það þurfi að vera mjög margir svo það sé gaman.“