Nýtt útlendingafrumvarp var samþykkt á þingi gær og sitt sýnist hverjum um þær niðurstöður. „Ég skil ekki þessa rosalegu hysteríu,“ segir Júlía Margrét Einarsdóttir, rithöfundur.
„Við búum hérna á einhverju skítaskeri á hjara veraldar og það er alltaf ógeðslega kalt hérna og dimmt og leiðinlegt. Það langar engan svona rosalega mikið að vera hérna,“ segir hún.
„Þau eru að fá tíu þúsund kall á mánuði og fá að húka í einhverju mygluðu húsi á Reykjanesi. Langt frá allri menningunni. Þetta er fólk sem er alið upp af ótrúlega hlýrri ömmu, það er með rosalega mikið af ávöxtum í garðinum og fallegum gönguleiðum.“
Þau eru að fá tíu þúsund kall á mánuði og fá að húka í einhverju mygluðu húsi á Reykjanesi.
Júlía Margrét ítrekar að enginn velji að rífa sig upp með rótum til að húka hér heldur sé það bersýnilega neyð sem rekur fólk í þær aðstæður.
„Mér finnst þessi firring svo rosaleg, að við þurfum alltaf að passa að fólk sé ekki að svindla sér. Ég spyr, svindla sér til að gera hvað?“
Ingibjörg Sædís tekur undir það. „Fyrir utan það hvað fjölmenning gerir samfélagið mikið betra,“ segir hún.
Hún rifjar upp atvik frá 15. nóvember, þegar sprengja frá Rússlandi rataði inn fyrir Pólsku landamærin með þeim afleiðingum að tveir létust.
„Ef það hefði orðið til þess að Pólverjar hefðu sett á herskyldu, ímyndið ykkur ef herskylda hefði verið sett á, hvaða áhrif það hefði á Ísland af því að pólska samfélagið er mjög stórt,“ segir hún. „Það hefði haft veruleg áhrif hér. Við þurfum að hugsa líka hvað gerir okkur gott að hafa allskonar fólk á Íslandi sem glæðir menninguna lífi.“
Viðtalið við Ingibjörgu Sædísi og Júlíu Margréti Einarsdóttur má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.