Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur auk tveggja starfsmanna embættisins verið kallaður til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn héraðssaksóknara. Starfsmennirnir tveir hafa verið sendir í leyfi á meðan á rannsókninni stendur.

Ekki eru staðfestar heimildir fyrir sakarefninu en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru starfsmenn kallaðir á fund lögreglustjóra í haust til að ræða meint trúnaðarbrot.

Ólafur Helgi lét af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum í ágúst síðastliðnum og tók hann við starfi sérfræðings í dómsmálaráðuneytinu. Grímur Hergeirsson tók við embættinu tímabundið. Úlfar Lúðvíksson var skipaður lögreglustjóri í nóvember.

Miklar deilur voru innan embættisins í sumar, þar á undan hafði verið mikið um samskiptaörðugleika. Aðstoðarsaksóknari, mannauðsstjóri og yfirlögfræðingur embættisins fóru í veikindaleyfi eftir að tveir starfsmenn kvörtuðu til Ólafs Helga undan einelti. Hafa þau alfarið neitað þeim ásökunum.

Samkvæmt heimildum snýr meint trúnaðarbrot að hluta til að birtingu bréfs sem Ólafur sendi dómsmálaráðuneytinu í sumar.

Í bréfinu, sem var sent áður en Ólafur náði samkomulagi við ráðuneytið, fer hann meðal annars fram á að veikindaleyfi yfirmannanna verði skoðuð nánar af ráðuneytinu. Segir hann í bréfinu það með ólíkindablæ að yfirmennirnir, sem hafi lent í illdeilum við lögreglustjóra, hafi samtímis orðið veikir.

Ólafur Helgi vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.