Kraumandi ólga innan verkalýðshreyfingarinnar eftir undirritun samnings. Forseti ASÍ segir að það yrði þungt högg fyrir samtökin ef Efling klýfur sig út úr ASÍ.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, segir að neikvæð viðbrögð hafi komið sér á óvart eftir að Starfsgreinasambandið skrifaði undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins um helgina.

„Já, það kom mér á óvart, maður sér mikinn ávinning í þessum samningi fyrir þennan hóp, ég óskaði þeim til hamingju, það náðust fram ákveðin verðmæti,“ segir Kristján Þórður.

Ragnar Þór Ingólfsson hjá VR og Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu hafa gagnrýnt kjarasamninginn og vinnubrögðin í aðdraganda hans. Viðbrögð þeirra hafa farið illa í Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness. Spurður út í sambandið við Sólveigu Önnu og Ragnar Þór Ingólfsson sagði Vilhjálmur á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöld:

„Ég held að það sé smá vík á milli vina. Ég held að það sé alveg ljóst. Nú verður maður bara að draga andann og átta sig á stöðunni.“

Vilhjálmur sagði að á viðkvæmum tímapunkti hafi mikilvægum upplýsingum verið lekið til fjölmiðla.

„Ég fæ þá tilfinningu að það hafi verið gert til að skemma og afvegaleiða það sem við vorum að gera. Ég er pínu sár yfir því. Samstarf fólks byggist upp á trausti, trúnaði og heiðarleika,“ sagði Vilhjálmur.

„Ég lak ekki þessum upplýsingum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir þegar hún var spurð út í ummæli Vilhjálms rétt fyrir prentun Fréttablaðsins í gærkvöld. „Mín afstaða er sú að ég tel að mikil mistök hafi verið gerð í aðdraganda samninganna, að menn hafi leitað í vinnubrögð ógegnsæis.“

Sólveig Anna sagði mikilvægt að allt væri uppi á borðum.

„Það á ekki að pukrast í leynum með það sem verið er að semja um.“

Of snemmt er að segja til um hvort Efling verði áfram eða ekki innan Starfsgreinasambandsins og ASÍ að Sólveigar sögn. Um það sé alvarleg umræða en nú fari orkan í kjarasamningagerð.

Fréttablaðið spurði Kristján Þórð hvað yrði um ASÍ án Eflingar ef félagar í Eflingu ákveða síðar útgöngu.

„Það yrði sterkast ef félögin eru öll saman í einu sambandi og gætu leitað leiða til að styrkja heildina. Það yrði högg fyrir sambandið ef svo stór samtök myndu ganga út, en við höldum í þá von að okkur takist að vinna með okkar innri mál,“ segir hann.

Ekki hefur verið boðað til formlegs fundar hjá ríkissáttasemjara í dag um framhaldið. Gert er ráð fyrir vinnufundum en forseti ASÍ væntir þess að boðað verði til formlegs fundar innan skamms.

„Það er vilji okkar megin til að halda áfram viðræðum, gera kjarasamning sem nær yfir hópana okkar,“ segir Kristján Þórður.