Davíð Þór Björg­vins­son, dómari við Lands­rétt og fyrr­verandi dómari við Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu, segir niður­stöðu Yfir­deildar MDE „ekki kalla á neinar sér­stakar ráð­stafanir af hálfu Lands­réttar sem ekki hefur þegar verið tekið til.“

Þetta skrifar Davíð í pistli á vef­síðu sinni sem birtist í dag. Þar fer hann yfir dóm yfir­deildar MDE í Lands­réttar­málinu og segir að með dómi yfirdeildarinnar sé sé dregið veru­lega úr þeirri ó­vissu sem fyrri dómur skapaði.

Hann telur jafn­framt ó­lík­legt niður­staðan muni valda endur­upp­töku mála í stórum stíl.

„Þegar dómur í deild féll 12. mars á síðasta ári hafði hann nokkur á­hrif á starf­semi Lands­réttar. Þau helstu voru að endur­flutt voru ellefu mál sem í sátu ein­hver af þeim fjórum dómurum sem málið snýst um. Þessi mál höfðu verið dóm­tekin þegar dómur MDE féll en ekki dæmd. Þau voru endur­flutt fyrir öðrum dómurum réttarins og síðan dæmd. Þetta tók til­tölu­lega stuttan tíma og olli ekki teljandi röskun á starf­seminni,“ skrifar Davíð.

Hann segir jafn­framt að Lands­rétti hafi tekist vel í horfinu á meðan beðið var eftir niður­stöðu yfir­deildarinnar. Þegar fyrri dómur féll var tekinn á­kvörðun um að þeir dómarar sem áttu í hlut skyldu ekki sinna dómara­störfum og Lands­réttur fékk liðs­auka á meðan.

„Ó­vissa sem sveif yfir vötnum á göngnum Lands­réttar“

„Þrátt fyrir þetta leiddi af dómi deildar tvenns konar ó­vissa sem sveif yfir vötnum á göngum Lands­réttar þótt ekki hafi í sjálfu sér haft á­hrif á dag­lega starf­semi svo nokkru nemi. Annað var að vegna orð­færis í dómi deildar frá því í mars á síðasta ári þótti leika viss vafi á hvort niður­staðan tæki í raun til allra dómara Lands­réttar, og eru þá hafðir í huga meintir gallar á at­kvæða­greiðslu í þinginu, sem gat eftir orða­laginu talist hafa á­hrif á stöðu þeirra, en ekki að­eins þeirra fjögurra sem málið hverfist í grunninn um,“ skrifar Davíð.

Hinn ó­vissu­þátturinn var hvort niður­staðan kynni að leiða til að endur­upp­taka þyrfti þau mál sem ein­hver af hinum fjórum dómurum, sem mestur styr hefur staðið um, tóku þátt í að dæma.

Hann bendir á að þótt það kunni að hljóma ein­kenni­lega er niður­staða yfir­deildarinnar til þess fallin að draga úr þeirri ó­vissu. „Eðli­legt er að skilja hana svo, ef grannt er skoðað, að hún eigi ein­göngu við um fyrr­nefnda fjóra dómara (nú í reynd að­eins einn þeirra þar sem þrír hafa verið skipaðir aftur) en ekki alla dómarana eins og mögu­legt var að á­lykta af fyrri dómi MDE.“

Davíð bendir einnig á að í dómi yfir­deildarinnar er að finna til­mæli til ís­lenska ríkisins um að grípa til al­mennra ráð­stafana og leysa úr þeim vand­kvæðum sem dómurinn skapar og koma í veg fyrir frekari brot.

„Um þetta er að segja að þetta hefur þegar verið gert með því að tekin var sú á­kvörðun að þeir fjórir dómarar sem niður­staðan varðar skyldu ekki sinna dóm­störfum þegar á grund­velli dóms deildarinnar. Með þessari á­kvörðun var aug­ljós­lega komið í veg fyrir frekari mögu­leg brot. Þrír þeirra hafa komið til starfa aftur á grund­velli nýrrar skipunar. Skipan þeirra hefur því verið komið á traustan grunn. Niður­staða Yfir­deildar skapar því engin vand­kvæði sem ekki er þegar búið að leysa úr, að undan­skildum einum þessara dómara.“

Davíð skrifar að lokum að dómur MDE gefur til­efni til fleiri þanka m.a. um þátt Hæsta­réttar en dómur Hæsta­réttar frá því 2018 er varðar skipun dómara við Landsrétt sætir nokkurri gagn­rýni.

„Í þessum dómi Hæsta­réttar var komist að þeirri niður­stöðu að einn þeirra fjögurra dómara sem málið varðar væri lög­mætur hand­hafi dóms­valds þrátt fyrir galla á máls­með­ferð í að­draganda skipunar sem sami réttur hafði áður talið vera á henni. Telur MDE að Hæsta­rétti hafi brugðist boga­listin við að út­skýra þetta á full­nægjandi hátt með vísan til við­eig­andi megin­reglna sátt­málans.“

Hægt er að lesa pistil Davíðs í heild sinni hér.