„Störf án staðsetningar hafa kannski misst þann tilgang sem þau höfðu í upphafi. Það á alveg jafnt við að þessi störf lendi á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjölbreytni í störfum er náttúrulega miklu meiri heldur en víða um land“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona vinstri grænna en hún lagði fram fyrirspurn á mánudag til Alþingis þar sem hún biður um úttekt á framtakinu störf án staðsetningar sem auka áttu fjölbreytileika þeirra starfa sem hægt er að sinna á landsbyggðinni meðal annars.

„Mig langar að sjá hvernig þetta snýr að hinu opinbera því það var sett af stað ákveðið átak á því á síðasta kjörtímabili hjá hverju ráðuneyti fyrir sig að reyna að færa störf án staðsetningar út um landið,“ segir Lilja en hún beinir fyrirspurn sinni til innviðaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar.

„Mig langar að hrista aðeins upp í þessu og sjá hver staðan er. Ég get vissulega ekki séð hvernig þetta er hjá einkageiranum en ég get að minnsta kosti vonandi séð einhverja úttekt og þróun hvernig hið opinbera hefur verið að standa sig í þessum efnum undanfarin ár,“ segir Lilja.

Gæti eflt búsetuskilyrði á landsbyggðinni

Aðgerðin var sett fram í byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 en samkvæmt vefsíðu byggðastofnunar var verkefnismarkmiðið að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra yrðu óháð staðsetningu árið 2024 þannig að búseta hefði ekki áhrif við val á starfsfólki.

„Mig grunar að þetta sé ekki að skila sér sem skildi í að efla og styrkja fjölbreyttara atvinnulíf í dreifðum byggðum,“ segir Lilja sem vonast eftir skýrum og haldgóðum svörum frá innviðaráðherra.

„Þar sem fjarskiptasamband er orðið allt annað heldur en það var og einnig að reynslan í Covid, þessi tvö ár, sýndi að það var hægt að vinna fjölda starfa í gegnum tölvusamband heiman frá. Alveg jafnt þá hvar sem er á landinu og það hefur verið að aukast húsnæði sem boðið er upp á víða um land þar sem boðið er upp á að hýsa hina og þessa aðila, opinbera sem einkaaðila, fyrir þessa starfsemi,“ segir Lilja Rafney.

Lilja segir að ef störf án staðsetningar myndu virka sem skildi gæti það eflt búset skilyrði hjá þeim sem hyggjast flytja út á land.

„Segjum ef annar makinn fær ákveðna vinnu en erfiðara sé að horfa til þess hvað hinn aðilinn fær að gera en þá getur sá aðili mögulega tekið sitt starf með sér, sem væri þá í þessu tilfelli í opinbera geiranum og unnið það í gegnum tölvutæknina. Eitthvað sem enginn getur lengur mótmælt að hægt sé að gera, þetta var hægt í Covid,“ segir Lilja.