Sara Elísa Þórðar­dóttir, þing­maður Pírata, kallar eftir bættri upp­lýsinga­gjöf frá stjórn­völdum þegar kemur að sótt­varna­ráð­stöfunum. Hún segir stjórnar­and­stöðuna í­trekað hafa kallað eftir frekari upp­lýsingum um hvaða rök séu höfð til hlið­sjónar þegar á­kveðið er um hertar sótt­varna­ráð­stafanir en oft fáist ekki skýr svör.

Hún tekur sem dæmi grímu­skyldu barna en sam­kvæmt nú­verandi tak­mörkunum þurfa öll börn sem eru fædd fyrir 2008 að bera grímur þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjar­lægð. Upp­runa­lega stóð til að að­eins börn fædd síðar en 2011 væru undan­þegin grímu­skyldu en þeim reglum var fljótlega breytt.

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata.
Mynd/Aðsend

Engin svör frá ráðherra

Í sér­stökum um­ræðum um stöðu skóla­mála á tímum CO­VID-19, sem fóru fram á Al­þingi 13. nóvember síðast­liðinn, spurði hún Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra hvaða gögn hafi legið fyrir við á­kvörðun um grímu­skyldu barna. Þá hafi hún spurt um hvort það væru nægi­leg fræðsla til staðar fyrir börn um hvernig eigi að nota grímur svo þær geri gagn.

„Eftir fyrstu fyrir­spurnina þá forðaðist hún að svara þannig ég í­trekaði það í seinni fyrir­spurninni minni og aftur forðaðist hún að svara spurningunni,“ segir Sara í sam­tali við Frétta­blaðið um málið en í svari sínu sagði ráð­herra að­eins að stjórn­völd hafi ráð­fært sig við ýmsa hópa og er­lendra rann­sókna.

Börn fái ef til vill ekki fræðslu um rétta grímunotkun

Sara segist enn ekki hafa fengið nein skýr svör um af hverju það var á­kveðið að koma á grímu­skyldu barna eða hvort börn hafi fengið fræðslu um hvernig á að nota grímur rétt. Hún vísar til þess að á síðunni co­vid.is komi fram að grímur geri að­eins gagn ef þær eru notaðar rétt og að það geti jafn­vel valdið meiri skaða ef þær eru notaðar vit­laust.

Hún segir að um sé að ræða veru­lega í­þyngjandi að­gerð, sér­stak­lega börn sem hafa ekki upp­lýsingar um málið en hún vakti athygli á málinu í Facebook færslu fyrr í dag þar sem hún greindi frá því að dóttir hennar hafi jafnvel þurft að nota grímur í innanhúsíþróttum og ætti erfitt með að anda.

Hún vísar til þess að dóttir hennar, sem er undan­þegin grímu­skyldu en þarf að nota grímu í skólanum þar sem eldri ár­gangar eru í sama hús­næði, kannist ekki við það að hún eða skóla­fé­lagar hennar hafi fengið neina kennslu um rétta grímu­notkun.

Nauðsynlegt að um sé að ræða vel rökstuddar ákvarðanir

Að­spurð um hvað hún vilji sjá gerast næst segir hún að það þurfi að vera gagn­sæi í að­gerðum. „Það þarf að koma skýrt fram á hvaða for­sendum er verið að vega og meta hlutina og það hefur ekki verið nógu mikið um það,“ segir Sara og bætir við að spurning hennar til ráð­herra sé ekkert eins­dæmi.

„Þetta virðist allt vera mjög handa­hófs­kennt. Maður skilur að það er krísu­stjórnun í gangi og maður hefur alveg sam­úð með því að þetta er örugg­lega ekkert auð­velt að vera þarna í fram­línunni að taka þessar á­kvarðanir,“ segir Sara en hún segir nauð­syn­legt að um sé að ræða vel rök­studdar á­kvarðanir sem Al­þingi fær fram.

„Meðan þetta dregst svona á langinn og við erum að bíða eftir bólu­efni og það eru allir von­góðir, að reyna að halda hlutina út, að þá verður samt að vera ein­hver heil brú í því sem er verið að gera.“