Helgi Gunn­laugs­son af­brota­fræðingur segir í sam­tali við Morgun­blaðið að erfitt sé að vinna í gegnum vægari kyn­ferðis­brot í réttar­kerfinu eins og það er í dag. Það vanti við­unandi far­veg fyrir þol­endur að leita réttar síns.

Hann segir um­ræðuna sem hefur skapast núna í nýrri MeT­oo-byltingu endur­spegla van­mátt kerfisins til að takast á við kyn­ferðis­brot.

„Þess­ir þol­end­ur hafa fundið ann­an far­veg í þess­ari sam­­skipta­bylgju, MeT­oo, þar sem þeir geta tjáð sína reynslu,“ segir Helgi. Hann segir mögu­legt að þol­endur hafi ekki haft vett­vang til þess áður.

Að hans mati er ekki ó­skandi að málin fari á þennan veg og því sé mikil­vægt að koma til móts við þol­endur með öðrum hætti.

„Þetta er ekki rétt­ar­­ríkið sem við sjá­um fyr­ir okk­ur í siðuðu sam­­fé­lagi. Að hóp­ur ein­stak­linga taki sig sam­an gegn ein­um nafn­­greind­um ein­stak­lingi með að­stoð sam­­fé­lags­­miðla þar sem að­eins önn­ur hliðin kem­ur fram og ekki er unnt að svara fyr­ir á­sak­an­irn­ar,“ segir hann.

Þá segir Helgi að það æpi á mann að þessar reynslur finni sér margar hverjar ekki stað í réttar­kerfinu, enda sé oft erfitt að leita réttar síns vegna kyn­ferðis­brota, sér­stak­lega þeim sem vægari eru.

„Því velt­ir maður fyr­ir sér hvort það vanti ekki eitt­hvað milli­stig, á­kveðna sátta­miðlun eða borg­ar­­legt úr­ræði sem hægt er að leita til án þess að fara bein­lín­is inn í þetta hefð­bundna rétt­ar­­kerfi til að leita sátta,“ seg­ir hann.

Hann segir það mikil­vægt fyrir okkur að líta í eig­inn barm og spyrja hvort eitt­hvað hafi brugðist í sam­fé­laginu gagn­vart málum af þessu tagi.

„Þetta hlýt­ur að segja okk­ur að við þurf­um að gera enn bet­ur, ekki bara varðandi máls­með­ferðina sjálfa, held­ur ekki síður varðandi sam­­skipti kynj­anna og eitraða karl­­mennsku sem enn virðist því miður gæta í of rík­um mæli,“ segir hann.