Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fór með ræðu við athöfn sem fór fram við Ok í dag í tilefni þess að minnisvarða um jökulinn var komið fyrir á fjallinu. Í ræðu Katrínar biðlaði hún til heimsbyggðarinnar að grípa til róttækra aðgerða áður en það yrði um seinan.
Andri Snær Magnason, rithöfundur, fór einnig með tölu við tilefnið. Texti hans prýðir minnisvarðann og hljóðar svo; „Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerki er til vitnis um að við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“

Alþjóðlegur áhugi á jöklinum
Yfir tvö hundruð manns gengu upp fjallið eftir ræðuhöldin en mikill áhugi er meðal erlendra fjölmiðla á málinu. Fjallað hefur verið um hvarf jökulsins á öllum stærstu fréttamiðlum heimsins. Ok varð árið 2014 fyrsti íslenski jökullinn til að missa titil sinn og hverfa.
Hvarf jökulsins Ok er að sögn Katrínar aðeins ein af mörgum birtingarmyndum hamfarahlýnunar í heiminum. Okið sé viðvörun um að loftslagsvárinnar sé ekki að vænta í fjarlægri framtíð heldur blasi hún við mannkyninu hér og nú.
Kapphlaup við tímann
„Við erum í kapphlaupi við tímann,“ sagði Katrín og bætti við að löngu væri komin tími fyrir breytingar. „Það sem vísindamenn hafa lengi sagt hefur ræst með hvarfi Ok og talið er að allir jöklar landsins fari sömu leið á næstu tvö hundruð árum.“
Hún ítrekaði að Ísland ætti að vera leiðandi afl í baráttunni við loftslagsbreytingar enda tengist hamfarahlýnun öðrum baráttumálum samfélagsins. „Þegar við kljáumst við loftslagsháskann megum við ekki gleyma mannréttindum, félagslegu réttlæti og jafnrétti kynja því loftslagsmálin hafa mismunandi áhrif á okkur,“ sagði Katrín.
Tími aðgerða núna
Aðgerðaráætlun hefur verið sett fram af íslenskum stjórnvöldum sem Katrín segir að þurfi endurskoðun reglulega. Fram undan væru fjölda aðgerða á vegum ríkisins líkt og grænir skattar, kolefnisbinding og fleiri breytingar. „Við erum ekki orðin of sein en tími aðgerða er núna.“


