Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, kallar eftir framtíðarplani sem ríkisstjórnin lofaði í fyrrasumar.

Þingmaðurinn vakti athygli á viðtali við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist í Fréttablaðinu í fyrrasumar þar sem hún lofaði ákveðnum áformum til framtíðar í baráttunni gegn Covid-19.

„Við erum í rauninni að gefa okkur þennan tíma, í raun bara þessar tvær til þrjár vikur, til að vinna þessa vinnu og hún er farin af stað,“ sagði Þórdís í umræddu viðtali og vísaði til stefnumótunarvinnu um lífið með Covid til framtíðar.

„En síðan hefur ekkert heyrst um neitt plan ríkisstjórnarinnar.“

Þorbjörg vill vita hvað varð þessi áform.

„Stefnan og planið átti að svara hvernig við ætlum sem þjóðfélag að lifa með Covid í náinni framtíð og mögulega um alla framtíð. En síðan hefur ekkert heyrst um neitt plan ríkisstjórnarinnar þangað til formaður Sjálfstæðisflokksins birtist í fjölmiðlum fyrir jól og kallaði eftir plani og framtíðarsýn. Virtist þá ekki vita að hans eigin ríkisstjórn hafði sagst vera að smíða þetta plan síðasta sumar,“ sagði Þorbjörg á þingfundi í dag.

„Forystuleysið hrópar á okkur. Gerir ríkisstjórnin sér ekki grein fyrir hlutverki sínu? Að ráðherrar geta gert meira en bara að gagnrýna eigin stefnu? Á meðan býr þjóðfélagið nefnilega við stöðuga óvissu.“