Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og trúnaðarmaður í Síðuskóla á Akureyri, kallar eftir bakvarðarsveit grunnskólakennara eins og innan heilbrigðis- og félagsgeirans. Hún segir starf grunnskólakennara hafa breyst vegna kórónaveiruvárinnar sem geisar nú um heimsbyggðina.

„Nú er skipulag og framkvæmd kennslu með allt öðrum hætti. Margir ganga svo langt og benda á að hér sé um pössun að ræða. Stangast svolítið á við það sem fræðin halda fram, að allt sem við gerum sé nám. Nemendur fá hvoru tveggja formlegt og óformlegt nám í skólunum í dag,“ skrifar Helga Dögg í grein sem birtist í dag á Vikudegi.

Annars konar lærdómur

Hún segir að á krefjandi tímum sem þessum þurfi annars konar hugsun og framkvæmd í grunnskólum. Nemendur læri um veirur, smit, mikilvægi hreinlætis og hvernig skuli bregðast við breytingum með litlum fyrirvara.

„Nemendur læra og upplifa að fullorðna fólkið passi upp á það. Nemendur læra að kennarar séu sveigjanlegir í vinnubrögðum og störfum. Nemendur læra annars konar vinnubrögð við nám, s.s. aukna fjarkennslu. Eldri nemendur læra meira um sjálfstæð vinnubrögð og aukna ábyrgð á eigin námi. Nemendur kryfja eigin styrkleika og veikleika í fjarnámi sem og við breyttar aðstæður. Yngri nemendur halda áfram að læra það sem kennt er í skólum öllu jöfnu, lestur, stærðfræði o.fl.“

Helga bendir á að námsgreinar eins og íþróttir hafi breyst. Útivera með hreyfingu sé nú meiri en áður og hafi margar kennarar hreyfingu fastan lið í stundatöflunni. Ekkertr banni kennurum að fara í göngutúr með nemendum.

Allt í lagi að biðja um aðstoð

Helga segir ástandið krefjandi bæði fyrir nemendur og kennara og segir hún ekkert að því að óska eftir hjálp.

„Nemendur þreytast sem og kennarar vegna íþyngjandi en nauðsynlegra reglna sem og verulegra breytinga í skólastarfi. Nú ríður á að starfsmenn sameinist í að létta undir hvor með öðrum, með öllum tiltækum ráðum. Mikilvægt er að aðstoða þann sem óskar eftir hjálp. Við verðum að virða að ekki eru allir jafn sterkir til starfans undir þessu álagi. Það er í lagi að beygja af og óska eftir hjálp. Vænti þess að allir stjórnendur bregðist við slíkum beiðnum,“ skrifar Helga og bætir við:

„Kennarar við erum mennsk, ekki ,,súperman“ úr kvikmynd sem getur bjargað öllu. Betra er að biðja um hjálp fyrr en seinna.“

Bakvarðarsveit kennara

Helga segir grunnskólakennara hafa staðið vörð um velferð og heilsu nemenda og skólastarfið og þeir muni gera það áfram ákveði stjórnvöld að halda skólum opnum. Hún bendir á að bæjar- og sveitarfélög geti lagt sitt af mörkum með því að óska eftir bakvarðarsveit grunnskólakennara, sem væru tilbúnir að koma tímabundið inn til að létta álagi af kennurum. Slíkt sé gert innan heilbrigðis- og félagsgeirans.

„Hér með hvet ég fræðsluyfirvöld á Akureyri að hefja undirbúning að slíkri bakvarðarsveit til að grípa til þegar skólastarf hefst að nýju eftir páskafrí grunnskólanna. Ég hef áhyggjur af að hluti grunnskólakennara snúi ekki aftur eftir páskafrí en vonandi eru þær áhyggjur innistæðulausar,“ skrifar Helga og telur að breytt skólastarf muni halda áfram út skólaárið.