Fyrrum fjölmiðlamaðurinn Gunnar Waage er harðorður í garð íslenskra stjórnvalda í pistli um stöðu hælisleitenda sem hann birti á Facebook í gær. Gunnar krefst þess að forsætisráðherra stöðvi allar brottvísanir á hælisleitendum í 4-6 vikur á meðan alþingi undirbýr lagasetningu auk þess sem hann kallar eftir afsögn Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra.
Gunnar stendur fyrir undirskriftasöfnun handa tveimur sómölskum flóttakonum sem til stendur að brottvísa úr landi og berst fyrir því að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína í máli þeirra.
„Í fyrsta lagi þá vil ég taka fram að við höfum ekki áhyggjur af að konurnar verði fluttar frá Grikklandi til Sómalíu. Málið snýst um að þær verði fluttar til Grikklands á götuna þaðan sem þær komu. Þessa misskilnings hefur gætt. Það eru tilmæli alþjóðastofnana að hætt verði að senda fólk til Grikklands,“ skrifar Gunnar.
Þá segir hann kröfu sína til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, vera bæði einfalda og skýra:
„Að allar brottvísanir verði stöðvaðar í 4 – 6 vikur á meðan að alþingi undirbýr lagasetningu og að skýr yfirlýsing berist frá ríkisstjórn um þetta undir eins.“
Tyrkir ábyrgir fyrir stríðsglæpum
Gunnar furðar sig á því að forsætisráðherra, sem gamall andstæðingur Evrópusambandsaðildar, skuli ekki sjá ástæðu til að fjalla um ólögmætan flóttamannasamning ESB við Tyrkland.
„Það var vitað áður en sá samningur var gangsettur að hann myndi ekki virka, dómskerfin í Grikklandi og Tyrklandi réðu ekki við að starfa samkvæmt Dyflinarreglugerðinni. Þess utan þegar að ytri landamæri Evrópusambandsins eru orðin landamæri Tyrklands að Sýrlandi, þá vakna ýmsar spurningar,“ skrifar hann.
Þá segir hann Recep Erdogan, Tyrklandsforseta, vera ábyrgan fyrir stríðsglæpum tyrkneska ríkisins gagnvart Kúrdum á undangengnum árum og spyr hvort Tyrkir séu bandamenn sem Ísland geti treyst í málefnum flóttafólks. Gunnar vísar einnig til skelfilegs aðbúnaðar flóttamanna í Grikklandi og segir forkastanlegt að senda fólk aftur í þær aðstæður.
„Ég veit ekki hver er lausnin á Tyrklands/Grikklands stöðunni sem Donald Trump hefur nú lært af og komið upp sams konar verkefni með flóttamannabúðum sunnan við landamæri Mexíkó, en hún er ekki að loka augum og reka hér þjáðar konur aftur til baka til Grikklands til að búa þar á götunni í vosbúð innan um rottugang og kynbundið ofbeldi, mansal etc.“
Skeytingarleysi fyrir mannlegum hörmungum
Gunnar er ómyrkur í máli og telur aðeins kost í stöðunni fyrir dómsmálaráðherra:
„Það er lítið annað í stöðunni fyrir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra en að segja af sér. Sá stórkostlegi dómgreindarbrestur og skeytingarleysi hans fyrir mannlegum hörmungum er af slíkri tegund, að honum er ekki treystandi.“
Pistil Gunnars Waage má lesa í heild sinni á Facebook síðu hans.