Fyrrum fjöl­miðla­maðurinn Gunnar Wa­age er harð­orður í garð ís­lenskra stjórn­valda í pistli um stöðu hælis­leit­enda sem hann birti á Face­book í gær­. Gunnar krefst þess að for­sætis­ráð­herra stöðvi allar brott­vísanir á hælis­leit­endum í 4-6 vikur á meðan al­þingi undir­býr laga­setningu auk þess sem hann kallar eftir af­sögn Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra.

Gunnar stendur fyrir undir­skrifta­söfnun handa tveimur só­mölskum flótta­konum sem til stendur að brott­vísa úr landi og berst fyrir því að stjórn­völd endur­skoði á­kvörðun sína í máli þeirra.

„Í fyrsta lagi þá vil ég taka fram að við höfum ekki á­hyggjur af að konurnar verði fluttar frá Grikk­landi til Sómalíu. Málið snýst um að þær verði fluttar til Grikk­lands á götuna þaðan sem þær komu. Þessa mis­skilnings hefur gætt. Það eru til­mæli al­þjóða­stofnana að hætt verði að senda fólk til Grikk­lands,“ skrifar Gunnar.

Þá segir hann kröfu sína til Katrínar Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, vera bæði ein­falda og skýra:

„Að allar brott­vísanir verði stöðvaðar í 4 – 6 vikur á meðan að al­þingi undir­býr laga­setningu og að skýr yfir­lýsing berist frá ríkis­stjórn um þetta undir eins.“

Tyrkir á­byrgir fyrir stríðs­glæpum

Gunnar furðar sig á því að for­sætis­ráð­herra, sem gamall and­stæðingur Evrópu­sam­bands­aðildar, skuli ekki sjá á­stæðu til að fjalla um ó­lög­mætan flótta­manna­samning ESB við Tyrk­land.

„Það var vitað áður en sá samningur var gang­settur að hann myndi ekki virka, dóms­kerfin í Grikk­landi og Tyrk­landi réðu ekki við að starfa sam­kvæmt Dyflinar­reglu­gerðinni. Þess utan þegar að ytri landa­mæri Evrópu­sam­bandsins eru orðin landa­mæri Tyrk­lands að Sýr­landi, þá vakna ýmsar spurningar,“ skrifar hann.

Þá segir hann Recep Erdogan, Tyrk­lands­for­seta, vera á­byrgan fyrir stríðs­glæpum tyrk­neska ríkisins gagn­vart Kúrdum á undan­gengnum árum og spyr hvort Tyrkir séu banda­menn sem Ís­land geti treyst í mál­efnum flótta­fólks. Gunnar vísar einnig til skelfi­legs að­búnaðar flótta­manna í Grikk­landi og segir for­kastan­legt að senda fólk aftur í þær að­stæður.

„Ég veit ekki hver er lausnin á Tyrk­lands/Grikk­lands stöðunni sem Donald Trump hefur nú lært af og komið upp sams konar verk­efni með flótta­manna­búðum sunnan við landa­mæri Mexíkó, en hún er ekki að loka augum og reka hér þjáðar konur aftur til baka til Grikk­lands til að búa þar á götunni í vos­búð innan um rottu­gang og kyn­bundið of­beldi, man­sal etc.“

Skeytingar­leysi fyrir­ mann­legum hörmungum

Gunnar er ó­myrkur í máli og telur að­eins kost í stöðunni fyrir dóms­mála­ráð­herra:

„Það er lítið annað í stöðunni fyrir Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra en að segja af sér. Sá stór­kost­legi dóm­greindar­brestur og skeytingar­leysi hans fyrir mann­legum hörmungum er af slíkri tegund, að honum er ekki treystandi.“

Pistil Gunnars Wa­age má lesa í heild sinni á Face­book síðu hans.