„Þetta snýst um aðgerðir, ekki umbúðir,“ sagði Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúinni fyrirspurn á þingfundi í dag. Hann kallar á róttækari breytingar í loftslagsmálum.

Þurfum að tífalda fjármagn í umhverfismál

„Við munum ekki ná árangri nema stjórnvöld, ríki, sveitarfélög og atvinnulíf taki höndum saman.“

„Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur reiknað að verja þurfi 2,5 prósentum af landsframleiðslu í loftslagsaðgerðir, við erum að eyða 0,25 prósentum samkvæmt loftslagsáætlun. Sé litið til umhverfismála í 5 ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er einungis gert ráð fyrir 0,2 prósenta hækkun á framlögum og það er ekki í samræmi við þær róttæku aðgerðir sem er nauðsynlegt að ráðast í ef Ísland á að halda vatni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Logi og bætir við að þörf sé fyrir 10 sinnum hærra fjármagni til að sporna við loftslagsbreytingum.

Atvinnulífið þurfi að koma fullum krafti inn í loftslagsmál

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók undir með Loga í seinna svari sínu við fyrirspurninni og sagði að fjármálaáætlunin yrði að verða til stöðugrar endurskoðunar. Hún sagði umhverfismálin ekki sérmálefni, heldur yrði þau að vera rædd í samhengi við aðrar stefnur. Hún segir það fjármagn sem gert er ráð fyrir hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna sé fyrir heildar framlögum, ekki einungis framlögum hins opinbera.

„Hjá alþjóðastofnunum er ekki bara gert ráð fyrir framlögum hins opinbera. Ég þreytist ekki á að segja það að atvinnulífið þarf að koma fullum krafti inn í þetta mál. Mér hefur fundist atvinnulífið vera núna að lýsa því mjög sterkt yfir að það vilji taka þátt í þessu verkefni. Við munum ekki ná árangri nema stjórnvöld, ríki, sveitarfélög og atvinnulíf taki höndum saman,“ sagði Katrín.