Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti í morgun að kalla þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson, Guðlaug Þór Þórðarson og Bjarna Benediktsson á fund sinn vegna ummæla sem féllu í samræðum þingmannanna á Klaustri bar 20. nóvember. 

Þar lét Gunnar Bragi það í ljós að hann hafi fengið vilyrði fyrir sendiherrastöðu sjálfur eftir að hann, í störfum sínum sem utanríkisráðherra, skipaði Geir H. Haarde sendiherra Íslands gagnvart Washington D.C. Tillagan er Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, en hún situr í nefndinni. RÚV greindi fyrst frá.

Gunnar Bragi hefur opinberlega sagt að ummælin hafi verið þvættingur, hann sjái fyrir sér að hann yrði góður sendiherra en engin loforð hafi verið gefin um slíkt. Þá hefur Bjarni Benediktsson sagt að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki í skuld við neinn vegna skipunar Geirs.

Guðlaugur Þór utanríkisráðherra greindi frá því á Facebook í dag að fjórmenningarnir hafi fundað um áhuga Gunnars Braga á stöðu sendiherra fyrir fáeinum vikum. Hann segir að frásagnir um samkomulag líkt og fram kemur í upptökunum frá Klaustri séu honum „algjörlega framandi“. Enda hafi verið um að ræða hefðbundinn fund og ekki óalgengt að utanríkisráðherra fái uppástungur og meðmæli með fólki í stöðu sendiherra.