Taldar eru yfirgnæfandi líkur á að maðurinn, sem sætir gæsluvarðhaldi í tengslum við andlát ungrar konu á Akureyri um síðastliðna helgi, hafi verið heima hjá henni þegar hún lést. Hann kallaði ekki eftir hjálp og lét sig hverfa þegar föður konunnar bar að. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Maðurinn mun að óbreyttu sitja í haldi fram á föstudag.

Lögreglan á Norðurlandi eystra taldi mikilvægt að hinn grunaði fengi ekki að ganga laus á frumstigi rannsóknarinnar því hætta sé á að hann torveldi henni með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Þá sé enn ekki búið að útiloka að fleiri hafi verið inni í íbúð konunnar. 

Rannsóknin er skammt á veg komin og dánarorsök enn ókunn en talið er að fíkniefni hafi komið við sögu, samkvæmt heimildum blaðsins. Þá hefur sími konunnar ekki verið rannsakaður en talið er að þar gætu verið að finna mikilvægar upplýsingar og hvort fleiri hafi verið inni í íbúð hennar umrædda nótt. -sks