Baldur Þór­halls­son, stjórn­mála­fræði­prófessor í HÍ, sem nú er staddur í Tel Aviv í Ísrael í til­efni af Euro­vision söngva­keppninni var kallaður gyðinga­hatari úti á götu í borginni í gær en Baldur greinir frá þessu í Face­book færslu, sem má sjá hér að neðan.

Í færslunni tekur Baldur það fram að Ísraelar hafi tekið al­mennt mjög vel á móti þeim Ís­lendingum sem staddir séu í Tel Aviv í tengslum við Euro­vision. Efnt hafi verið til vin­áttu­leiks í gær á milli liðs „Ís­lands“ og liðs heimilis­lausra araba og Ísraela frá Jerúsalem og Tel Aviv og hafi verið boðið til fagnaðar á eftir.

„Lang­flestir Ís­lendingar ræða af yfir­vegun um þátt­töku Ís­lands í keppninni og hvetja lista­fólkið okkar til dáða á fag­legum for­sendum. - Það er þó ekki laust við að ein­staka aðili ráði ekki við sig í því pólitíska and­rúms­lofti sem keppninni fylgir í ár,“ ritar Baldur.

Hann segir að ein­hverjir á Face­book síðu sinni hafi ýjað að því að þeir sem væru fylgjandi þátt­töku Ís­lands í keppninni styddu þar með dráp ísraelskra stjórn­valda á palestínskum börnum.

„Nú síðast þegar gangandi veg­farandi hér í Tel Aviv komst að því að ég væri Ís­lendingur var kallað á eftir mér að ég væri gyðinga­hatari! Aðrir veg­far­endur litu á mig furðu losnir og vissu ekki hvaðan á þeim stóð veðrið! Ég geri fast­lega ráð fyrir því að þetta tengist um­fjöllun ísraelskra dag­blaða um yfir­lýsingar ís­lensku lista­mannanna um stjórn­mála­á­standið hér,“ ritar Baldur sem segist gera fast­lega ráð fyrir því að þetta tengist um­fjöllun ísraelskra blaða­manna um yfir­lýsingar Hatara um Ísrael.

Ekki eini Ís­lendingurinn sem hefur lent í þessu

Baldur segist jafn­framt ekki hafa verið eini Ís­lendingurinn sem lenti í þessu í vikunni. „Euro­vision boðar frið, sam­vinnu og fjöl­breyti­leika. Það er pólitík rétt eins og það er pólitík að boða stríð, á­taka­stjórn­mál og fá­breytni. Pólitíkin í Euro­vision snýst um að við reynum að horfa á það sem við eigum sam­eigin­legt í stað þess að ein­blína stöðugt á það sem sundrar okkur. Euro­vision leitast við að búa til rými þar sem ó­líkum hópum fólks, sem hafa mis­munandi bak­grunn og skoðanir, er kippt út úr á­taka­stjórn­málum sam­tímans og fengnir til að njóta sam­eigin­legrar menningar­arf­leiðar.“

Þá segir Baldur að­Ís­lendingar hafi á­kveðið að halda á­fram að veðja á vett­vang samvnnu frekar en á­taka þetta árið. Í stað þess að snið­ganga keppnina hafi lands­menn sam­einast um að velja grípandi lag með há­pólitískan boð­skap.

„Það var snjall leikur. Textinn og svið­setningin er hár­beitt á­deila á harð­stjóra, lýð­skrum og mann­réttinda­brot. Þetta er gert án þess að vísað sé til til­tekins lands, þjóðar eða at­burðar. Þannig brýtur lista­verkið ekki reglur keppninnar og fellur í raun vel inn í pólitíkina sem Euro­vision boðar. Lista­verkið þarf engra skýringa við,“ ritar Baldur og segist jafn­framt aldrei hafa verið sann­færðari en ein­mitt nú um mikil­vægi þess að tala fyrir friði, sam­vinnu og fjöl­breyti­leika, sem sé boð­skapur Euro­vision.