Velferðarnefnd Alþingis mun koma saman um páskana og funda um nýja reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttvarnahús og aðgerðir við landamærin. Ráðherrann mun koma á fund nefndarinnar til að fara yfir reglugerðina og lagaheimildir fyrir henni. Þetta staðfestir formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, við Fréttablaðið.
Þetta var niðurstaðan í dag eftir að nokkrir nefndarmenn höfðu leitað leiða til að kalla nefndina saman í páskafríinu. Vísir greindi frá því í dag að Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, hefði kallað eftir því að nefndin kæmi saman í fríinu til að fara yfir málið. Til þess að þingnefnd geti komið saman í þinghléi verða þó allir nefndarmenn að samþykkja það. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins sem á sæti í nefndinni, vildi þó ekki samþykkja þetta.

Útlit var þá fyrir að ekki yrði af fundinum áður en þeir nefndarmenn sem vildu funda áttuðu sig á því að þeir gætu boðað ráðherra á fund nefndarinnar. Samkvæmt þingskapalögum þarf aðeins fjórðungur nefndarmanna að óska eftir því að ráðherra komi á fund nefndarinnar í þinghléum til þess að fundur verði haldinn.
Má ekki bíða í marga daga
„Það er staðfest að ráðherrann verði boðaður á fundinn og að nógu margir nefndarmenn hafa farið fram á það til að hann verði haldinn í fríinu. Þetta er allt eftir ákvæði í þingskapalögum sem var held ég sett inn árið 2007,“ segir Helga Vala, formaður nefndarinnar við Fréttablaðið.
„Það er mjög mikilvægt að við förum yfir þetta strax. Þetta má ekki bíða í marga daga þar til eftir að páskafríið klárast því það verður að greiða úr þessum vafamálum strax."

Hún er þó ekki viss um nákvæmlega hvenær fundurinn verði haldinn. Það eigi eftir að heyra í ráðherranum og sjá hvenær hún komist. Helga Vala býst þó fastlega við að hann verði haldinn strax fyrsta virka dag eftir páska, það er næsta þriðjudag.
Áhyggjur nefndarmannanna snúa að því að heilbrigðisráðherrann hafi ekki heimild til þess í nýjum sóttvarnalögum, sem samþykkt voru í janúar, til að skylda íslenska ríkisborgara til að dvelja í sóttvarnahúsi við komu sína heim til landsins. Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag hefur íslensk kona sem dvelur í húsinu þegar farið af stað með kröfu gegn ríkinu vegna málsins. Niðurstaða í því máli ætti að fást í héraðsdómi á næstu dögum.