Vel­ferðar­nefnd Al­þingis mun koma saman um páskana og funda um nýja reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra um sótt­varna­hús og að­gerðir við landa­mærin. Ráð­herrann mun koma á fund nefndarinnar til að fara yfir reglu­gerðina og laga­heimildir fyrir henni. Þetta stað­festir for­maður nefndarinnar og þing­maður Sam­fylkingarinnar, Helga Vala Helga­dóttir, við Frétta­blaðið.

Þetta var niður­staðan í dag eftir að nokkrir nefndar­menn höfðu leitað leiða til að kalla nefndina saman í páska­fríinu. Vísir greindi frá því í dag að Hall­dóra Mogen­sen, þing­flokks­for­maður Pírata, hefði kallað eftir því að nefndin kæmi saman í fríinu til að fara yfir málið. Til þess að þing­nefnd geti komið saman í þing­hléi verða þó allir nefndar­menn að sam­þykkja það. Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­flokks­for­maður Flokks fólksins sem á sæti í nefndinni, vildi þó ekki sam­þykkja þetta.

Hluti velferðarnefndar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Út­lit var þá fyrir að ekki yrði af fundinum áður en þeir nefndar­menn sem vildu funda áttuðu sig á því að þeir gætu boðað ráð­herra á fund nefndarinnar. Sam­kvæmt þing­skapa­lögum þarf að­eins fjórðungur nefndar­manna að óska eftir því að ráð­herra komi á fund nefndarinnar í þing­hléum til þess að fundur verði haldinn.

Má ekki bíða í marga daga

„Það er stað­fest að ráð­herrann verði boðaður á fundinn og að nógu margir nefndar­menn hafa farið fram á það til að hann verði haldinn í fríinu. Þetta er allt eftir á­kvæði í þing­skapa­lögum sem var held ég sett inn árið 2007,“ segir Helga Vala, formaður nefndarinnar við Fréttablaðið.

„Það er mjög mikil­vægt að við förum yfir þetta strax. Þetta má ekki bíða í marga daga þar til eftir að páska­fríið klárast því það verður að greiða úr þessum vafa­málum strax."

Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, er for­maður vel­ferðar­nefndar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún er þó ekki viss um nákvæmlega hve­nær fundurinn verði haldinn. Það eigi eftir að heyra í ráð­herranum og sjá hve­nær hún komist. Helga Vala býst þó fast­lega við að hann verði haldinn strax fyrsta virka dag eftir páska, það er næsta þriðju­dag.

Á­hyggjur nefndar­mannanna snúa að því að heil­brigðis­ráð­herrann hafi ekki heimild til þess í nýjum sótt­varna­lögum, sem sam­þykkt voru í janúar, til að skylda ís­lenska ríkis­borgara til að dvelja í sótt­varna­húsi við komu sína heim til landsins. Eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag hefur ís­lensk kona sem dvelur í húsinu þegar farið af stað með kröfu gegn ríkinu vegna málsins. Niður­staða í því máli ætti að fást í héraðs­dómi á næstu dögum.