Magomed Daúdov, forseti þings Téténíu, lét þau orð falla í sjónvarpsviðtali í gær að téténskir hermenn myndu sækja fram til endimarka Úkraínu og jafnvel út fyrir landið nema Vladímír Pútín Rússlandsforseti skipi þeim að hætta. Stærði hann sig jafnframt að því að ef nauðsynlegt væri myndu þeir ná alla leið til Berlínar.

„Inshallah [Guð sé oss næstur], á því liggur enginn vafi,“ sagði Daúdov. „Alþýðulýðveldið Donetsk, Mykolajív, Kherson, Odesa. Þar til Vladímír Vladímírovítsj Pútín stöðvar okkur. Inshallah, við náum til Berlínar. Við munum sigra, á því er enginn vafi.“

Daúdov stillti innrásinni í Úkraínu jafnframt upp sem „heilögu stríði“ í þágu íslamstrúar. „Akhmat er vald!“ sagði hann og beitti þar slagorði sem vísar til Akhmats Kadyrov, föður núverandi téténska leiðtogans Ramzans Kadyrov.

„Allahu Akbar! [Guð er mestur!] Vladímír Vladímírovítsj Pútín forseti, í dag eru Ramzan Akhmetovítsj Kadyrov, bræður okkar, fyrst og fremst að verja íslam. Þeir eru að verja gildi. Þeir eru að velja mikilfengleika almættisins. Ramzan Akhmatovítsj Kadyrov, leiðtogi Téténíu, leikur lykihlutverk í þessu jihadi. Þetta snýst fyrst og fremst um trú á almættið. Þetta er um trúarleg gildi okkar og tungumál.“

Það kann að virðast þversagnakennt að þátttaka í styrjöld milli ríkja sem eru að meirihluta kristin sé talið heilagt stríð fyrir íslam. En Daúdov er ekki sá eini sem hefur sveipað innrásina heilagleika. Kírill, patríarki rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu, hefur stutt innrásina í messuhaldi sínu og hefur jafnvel veitt rússneskum hermönnum á leið til Úkraínu blessun sína. Hann hefur ítrekað sett stríðið í samhengi við stuðning við hinsegin réttindi á vesturlöndum lýst því yfir að stríðið snúist um það „með hvorum hluta mannkynsins Guð standi.“

Kírill patríarki hefur stutt innrásina í Úkraínu með vísan til baráttunnar gegn ósæmilegum gleðigöngum.
Mynd/EPA

„Gleðigöngur eru hannaðar til þess að sýna að synd sé hluti af mannlegu hegðunarmynstri,“ hefur Kírill sagt. „Þess vegna er nauðsynlegt að halda gleðigöngur til þess að geta gengið í klúbb þessara ríkja.“

Kírill heldur því fram að íbúar Donbas-héraðanna sem Rússar hyggjast „frelsa“ hafi hafnað hinsegin réttindum og gleðigöngum og að þannig gangi styrjöldin út á andleg viðhorf og kristilegt líferni.