For­svars­menn um­hverfis­sjóðsins Icelandic Wild­li­fe Fund (IWF) segja að frum­varp Kristjáns Þórs Júlíus­sonar sjávar­út­vegs­ráð­herra, um breytingu á ýmsum laga­á­kvæðum er tengjast fisk­eldi, vera stríðs­yfir­lýsingu á hendur þeim sem vernda vilja líf­ríkið. 

„Með því að leggja þessi drög fram hefur ráð­herra sýnt svo ekki verður um villst að hann hefur tekið sér stöðu með hags­muna­gæslu­mönnum sjó­kvía­eldis­fyrir­tækjanna gegn vísinda­mönnum Haf­rann­sóknar­stofnunar og nátturu­verndar­sam­tökum,“ segir í yfir­lýsingu IWF á Face­book. 

Er þar meðal annars vísað til þess að í frum­varp­drögunum leggi ráð­herra til þær breytingar að það verði á hans valdi að gefa út svo­kallað á­hættu­mat erfða­blöndunar en sam­kvæmt fyrra frum­varpi var á­hættu­mat Haf­rann­sóknar­stofnunar bindandi fyrir ráð­herra. 

„Það er al­gjör­lega ó­á­sættan­legt að á­hættu­matið verði gert pólitískt með þessum hætti,“ segir í færslu IWF. 

Gengið sé fram hjá vísindalegum vinnubrögðum

Sam­kvæmt nú­verandi á­hættu­mati Haf­rann­sóknar­stofnunar sé gert ráð fyrir að allt að 4 prósent fiska í ám landsins séu fiskar sem hafa sloppið úr eldi. „Með öðrum orðum að 1 af hverjum 25 fiskum í ís­lenskum ám geta verið norskir eldis­laxar. Það er ó­hugnan­leg tala. Sjó­kvía­eldis­fyrir­tækjunum finnst þetta á­hættu­mat hins vegar ganga of langt og vilja fá þröskuldinn hækkaðan veru­lega.“ 

Fyrirtækin vilji fá svig­rúm frá lög­gjafanum til enn rýmri mis­taka, að því er IWF heldur fram, þar sem fiskar sleppa úr sjó­kvíunum. Haf­rann­sóknar­stofnun hafi mátt sæta þungum þrýstingi af þeirra hálfu og óskaði Lands­sam­band fisk­eldis­stöðva meðal annars eftir því í fyrra að stofnunin myndi endur­skoða matið. 

„Haf­rann­sóknar­stofnun hafnaði því en nú ætlar ráð­herra að taka valdið til sín svo hægt verði að ganga fram hjá vísinda­legum vinnu­brögðum. Hags­muna­gæslu­menn sjó­kvía­eldisins hófu að grafa undan Haf­rann­sóknar­stofnun strax í kjöl­far þess að á­hættu­matið var gefið út í júlí 2017,“ segir í færslunni. 

Þá setur sjóðurinn spurningar­merki við á­kvæði ráð­herrans um sam­ráðs­vett­vang, sem ætlaður er stjórn­völdum til ráðgjafar vegna mál­efna fisk­eldis. Hlut­verk vett­vangsins er að leggja mat á for­sendur og úr­vinnslu þeirra gagna sem á­hættu­mat erfða­blöndunar byggir á að því er fram kemur í frum­varps­drögum.

Spurningarmerki við samráðsvettvang

„Þetta er afar sér­stakt á­kvæði. Ekki er gert ráð fyrir að í þessum sjö manna sam­ráðs­vett­vangi taki sæti vísinda­fólk til að rýna fræði­legar niður­stöður og gögn Haf­rann­sóknar­stofnunar, heldur mun vett­vangurinn vera skipaður þremur full­trúum ráð­herra, einum full­trúa eldis­fyrir­tækjanna, einum frá sam­bandi ís­lenskra sveitar­fé­laga og svo loks einum frá Haf­rann­sóknar­stofnun og einum frá Lands­sam­bandi veiði­fé­laga.“ 

Þannig sé hópnum ætlað að ráð­herranum í hendur „þá niður­stöðu sem hann vill og gefa honum þannig skjól til að fara gegn mati Haf­rann­sóknar­stofnunar“ að því er IWF segir. Er þá vísað til norska vísinda­ráðsins hvar þrettán vísinda­menn sitja, frá sjö mis­munandi stofnunum og há­skólum. 

„Mark­mið ráð­herra eru aug­ljós­lega að láta undan þrýstingi sjó­kvía­eldis­fyrir­tækjanna og hækka þröskuld á­hættu­matsins. Þetta ætlar hann að gera þvert á við­varanir vísinda­manna sem sýna okkur að við Ís­lendingar eigum að fara í hina áttina: Lækka þröskuldinn og stefna að því að hann verði núll. Það er ekki á­sættan­legt að einn einasti norskur eldis­lax gangi í ís­lenskar ár,“ segir að lokum.