Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á von á því að umræða um styttingu vinnuvikunnar verði meira áberandi í umræðum um kjarasamninga á almennum markaði en hinum opinbera. Styttingin var risastórt mál fyrir síðustu kjarasamninga BSRB og verði því áfram til umræðu í kjaralotunni.

„Stefnan okkar núna er 35 stunda vinnuvika og 80 prósent af því fyrir vaktavinnufólk. Þetta er styttra en samið var um,“ segir Sonja en þetta verður meðal annars til umræðu á framhaldsþingi BSRB í lok mars. Þá komi fram fyrstu vísar að því sem sett verði á oddinn í komandi kjaraviðræðum en samningarnir losna í mars 2023. Á hún von á því að farið verði að vinna að kröfugerðunum sjálfum í haust.

Vinnutíminn hefur ekki aðeins verið til umræðu hér á landi heldur er umræðan áberandi víðar, einkum um fjögurra daga vinnuviku. Í Belgíu samþykkti þingið stóra breytingu um að launafólk geti fengið þriggja daga helgi en vinni lengur hina fjóra dagana á móti. Skotar hyggjast fara svipaða leið og japönsk stjórnvöld hafa hvatt fyrirtæki til þess að leyfa starfsfólki að hliðra vinnustundum sínum fyrir þriggja daga helgi.

Aukinn sveigjanleiki

Árni Snævarr, sagnfræðingur sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, segir mikið rætt um breytinguna í Belgíu. Fyrir utan fjögurra daga vinnuviku sé einnig opnað á frekari sveigjanleika, til dæmis að fólk geti unnið 60 stundir eina vikuna en 20 þá næstu.

Árni Snævarr segir að reynsla frá fjarvinnu í faraldrinum sé undirstaða þróunarinnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er út af fyrir sig búið að tala um þetta alllengi og viðræður staðið lengi yfir. Þetta er ekki skylda, þannig að ég held að launþegar að minnsta kosti muni ekki bíta í skjaldarrendur,“ segir Árni. „Það er reynslan af fjarvinnu í Covid-19 sem er ástæðan fyrir að þetta skref er stigið. Það kom í ljós að vinnulöggjöfin sem var við lýði var of ósveigjanleg til að gera ráð fyrir til dæmis fjarvinnu.“

Atvinnuþátttaka er aðeins um 70 prósent í Belgíu, miðað við 80 prósent í Hollandi og Þýskalandi. Árni segir helsta takmark stjórnarinnar með styttingunni vera að auka atvinnuþátttöku. Einnig hafi verið samþykkt að starfsfólk eigi rétt á að vera ekki ónáðað af vinnuveitendum utan vinnutíma.

Fimm dagar ekki fasti í lögum

Sonja segir ekki hafa komið fram ákall um fjögurra daga vinnuviku frá baklandinu innan BSRB. Hún bendir þó á að fimm daga vinnuvika sé ekki fasti í lögum og sveigjanleiki vinnutíma sé sífellt að verða stærri hluti af kjaraumræðunni.

„Það er hægt að fara þessa leið en þá myndi launakostnaðurinn líklega hækka hjá öllum. Því hluti vinnutímans myndi þá fara fram yfir dagvinnutímarammann og verða að yfirvinnu. Það er ekki hægt að semja frá sér yfirvinnukaup,“ segir hún aðspurð um fjögurra daga vinnuviku.

Þegar nær dregur kjarasamningum verði þó litið yfir sviðið, til að mynda um styttingu vinnuvikunnar, og þá geti kviknað nýjar hugmyndir.

„Heilt yfir hefur styttingin gengið vel enda undirbúningurinn mikill,“ segir Sonja. „En eins og allar stórar breytingar tekur þetta tíma og það eru ekki allir komnir á þann stað sem við myndum vilja sjá.“

Eigi það einkum við um vaktavinnufólkið. Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku funda viðbragðs- og öryggisstéttir, svo sem lögreglumenn, tollgæslumenn og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, saman um kjaramál. Krafist er sólarhringsmönnunar og innleiðing styttingar vinnuvikunnar hefur ekki gengið sem skyldi.

Sonja segir útfærsluna fyrir þennan hóp áskorun líkt og hjá öðrum. Ætlast sé til þess að hún sé unnin út frá starfseminni, þörfum hennar og starfsfólksins. Til boða standi að fá ráðgjafa sem gangi með vinnustöðunum í gegnum ferlið.