„Ég man eftir því að hafa verið á Twitter og sé þá fyrirspurn frá Elinóru þar sem hún sagði; Mig langar að stofna einhvern femínískan miðil, hver er til í að koma með mér í það verkefni? Út frá því fór þetta að þróast, fólk bættist við eða datt út og svo hægt og rólega myndaðist góður kjarni sem fór í það að skapa Flóru,“ segir Steinunn Ólína Hafliðadóttir, ein af stofnendum femíníska veftímaritsins Flóru, í samtali við Fréttablaðið.

Flóra er óháð femínísk útgáfa og var stofnuð í byrjun sumars. Sex konur standa að baki fyrstu útgáfunni sem kom út í dag. Fyrsta útgáfan samanstendur af níu greinum og einum myndaþætti og er hönnuð, myndskreytt, skrifuð, forrituð, hugsuð og framkvæmd af konum. Steinunn segir að rauði þráður útgáfunnar sé femínismi en þrátt fyrir það sé tekist á við fjölbreytt umfjöllunarefni.

„Við viljum stofna vettvang til þess að ræða þessa hluti og við setjum femínisma í forgrunn en það mega allir taka þátt, við tökum við aðsendum greinum og við viljum fagna öllum fjölbreytileika.“

Vilja hrista upp í fjölmiðlum

Tímaritið kemur ekki út með hefðbundnum hætti heldur verður efninu dreift á nokkra daga. Þannig birtast ein til tvær greinar á dag yfir vikutímabil. Í dag hafa verið birtar tvær greinar og fjalla þær annars vegar um móðurhlutverkið á tímum loftslagsbreytinga og hins vegar má þar finna nokkurskonar ávarp til lesenda þar sem Elinóra ritar um tilgang tímaritsins.

„Þetta eiginlega okkar verk til þess að framfylgja þeirri ósk að hrista upp í íslensku fjölmiðlaefni. Við erum ennþá föst í stöðluðum kynjagreiningum hvað varðar fréttir og það hvaða fréttum er beint að konum og síðan körlum og þá er náttúrulega þriðja kynið útilokað. Með Flóru viljum við fanga flóru mannkynsins og sýna hvað við erum margslungin og efni okkar mun miðast út frá því að það hafi femínískan vinkil en sé samt fjölbreytt og vonandi fyrir alla,“ segir Steinunn.

Ásamt Steinunni skipar ritstjórn Flóru þær Elinóra Guðmundsdóttir, Berglind Brá Jóhannsdóttir, Eva Sigurðardóttir, Eydís Blöndal og Sóla Þorsteinsdóttir. Þær koma allar að útliti síðunnar en Berglind Brá sér um grafíska hönnun og forritun vefsins og Eva Sigurðardóttir er listrænn stjórnandi tímaritsins.

„Það er búið að vera mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með svona staðföstum og kraftmiklum konum sem að einhvern veginn ná allar að vinna sitt og skapa Flóru þrátt fyrir að við séum allar mjög uppteknar. Sumar eru með lítið barn, aðrar í hörku námi og vinnu en samt vannst þetta og það er búið að vera mjög gaman að sjá hvað getur búið í konum.“