Sveitarstjórnir Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar hafa tekið undir áskorun hóps áhugamanna til olíufélaganna um að lækka eldsneytisverð á Suðurnesjum. Tæplega 1.800 manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista þess efnis.

Víkurfréttir greindu frá upphafi undirskriftasöfnunarinnar og kom þá fram hjá forsvarsmönnum hennar að margir Suðurnesjamenn keyrðu austur í Hafnarfjörð til þess að taka bensín því það borgaði sig. Krefjast þeir þess að verð sé sambærilegt við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu, en verðmunurinn hleypur á tugum króna á lítra.

Bæjarráð Reykjanesbæjar bendir á að atvinnuástand sé nú með versta móti og hvetur olíufélögin til að sýna samfélagslega ábyrgð.