Breið­fylking evrópskra og banda­rískra sam­taka auk fjöl­margra fræði­manna hafa sent opið bréf til stjórn­valda í Evrópu­sam­bandinu og Banda­ríkjunum þar sem kallað er eftir banni við aug­lýsingum á netinu sem byggja á per­sónu­sniði og eftir­liti með not­endum.

Frá þessu er greint í til­kynningu frá Neyt­enda­sam­tökunum en þau eru meðal þeirra sam­taka sem hafa látið málið sig varða. Ís­lensk stjórn­völd haf fengið á­kallið sent en það kemur í kjöl­far nýrrar skýrslu norsku neyt­enda­sam­takanna, For­bru­kerrådet „Time to ban sur­veillance-based advertising – The case against commercial sur­veillance on­line“ sem Neyt­enda­sam­tökin segja varpa skýru ljósi á þann vanda sem við er að etja.

Í til­kynningu segir að sam­tökin hvetji ís­lensk stjórn­völd til að tryggja staf­ræn réttindi neyt­enda á veraldar­vefnum og segja að þar sem að netið þekki engin landa­mæri sé mikil­vægt að málið sé unnið í al­þjóð­legu sam­starfi.

Fjölmörg fyrirtæki safna upplýsingum um notendur sína til að selja auglýsendum.
Samsett/EPA

Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda

Í bréfinu segir að aug­lýsingar byggðar á eftir­liti með ein­stak­lingum tröll­ríði nú net­heimum og valdi bæði neyt­endum og fyrir­tækjum ýmiss konar skaða. Með bréfinu sé kallað eftir við­brögðum stjórn­valda beggja vegna At­lant­sálfa.

Evrópu­sam­bandið er hvatt til þess að taka til at­hugunar að banna að byggja aug­lýsingar á eftir­liti, innan ramma staf­rænnar þjónustu­lög­gjafar ESB. Stjórn­völd í Banda­ríkjunum eru hvött til að taka upp víð­tæka lög­gjöf varðandi frið­helgi einka­lífsins.

„Við erum breið­fylking neyt­enda­sam­taka, mann­réttinda­sam­taka, frjálsra fé­laga­sam­taka og fræða­fólks sem hefur marg­háttaðar á­hyggjur af því kerfis­bundna eftir­liti sem býr að baki flestum aug­lýsingum á netinu. Á undan­förnum árum hefur eftir­lits­hag­kerfið stækkað hratt og nánast allt það sem neyt­endur að­hafast, hvort heldur er á netinu eða utan þess, er skráð, því safnað saman og deilt, með það fyrir augum að ein­stak­lings­miða aug­lýsingar.“

Ekki samkomulag

Þá segir að eftir­lits­hag­kerfinu sé rang­lega lýst sem sam­komu­lagi sem felist í því að neyt­endur leyfi fyrir­tækjunum að fylgjast með sér gegn því að fá að­gang að raf­rænu efni sem þau bjóða upp á. Skýrsla norsku sam­takanna sýni þó að meiri­hluti neyt­enda kæri sig ekki um slíkt eftir­lit með net­notkun þeirra.

„Um­fang þessa eftir­lits gerir þó að verkum að neyt­endum er nánast ó­mögu­legt að komast hjá því og gerð ein­stak­lings­sniðs sem því fylgir. Aug­lýsingar byggðar á eftir­liti draga því fram ýmiss konar á­lita­mál varðandi frið­helgi einka­lífsins, en þær valda jafn­framt fjöl­mörgum öðrum vanda­málum eða magna þau upp.“

Þá segir að skýrslan sýni enn fremur að aug­lýsingar sem byggi á eftir­liti ýti undir kerfis­bundna markaðs­mis­notkun og mis­munun, ógni þjóðar­öryggi og fjár­magni fals­fréttir og svika­starf­semi, auk þess sem þær grafi undan eðli­legri sam­keppni og hamli því að þeir sem fram­leiða efni á netinu hafi af því eðli­legar tekjur.

„Þetta hefur skað­leg á­hrif á bæði neyt­endur og fyrir­tæki og getur grafið undan lýð­ræðinu,“ segir í bréfinu.

Þá segir að þótt svo að aug­lýsingar séu mikil­væg tekju­lind þá rétt­læti það ekki svo öflugt eftir­lits­kerfi svo að hægt sé að sýna „rétta fólkinu“ aug­lýsinguna. Talið er að aðrar að­ferðir séu til sem byggi ekki á njósnum um neytandann.

„Hið kerfis­bundna eftir­lit sem við búum við á aug­lýsinga­markaði getur ekki á nokkurn hátt talist vera sann­gjarn gagn­vart neyt­endum. Við köllum eftir ein­dreginni og skýrri af­stöðu og vonumst til þess að Evrópu­sam­bandið í­hugi bann við aug­lýsingum byggðum á eftir­liti, innan ramma staf­rænnar þjónustu­lög­gjafar ESB, og að Banda­ríkin komi á lag­girnar löngu tíma­bærri al­ríkis­lög­gjöf um frið­helgi einka­lífsins,“ segir í bréfinu sem er að­gengi­legt hér.