„Það er helst eftirlitsleysið sem við erum að lýsa áhyggjum yfir. Það er frábært að Hafnarfjarðarbær sé að fjölga leiksvæðum en á sama tíma eru þessir staðir því miður stundum staðir þar sem hópamyndun getur leitt til stríðnis án eftirlits,“ segir Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, meðlimur í Foreldraráði Hafnarfjarðar, aðspurð út í fyrirspurn foreldraráðsins sem var lögð fyrir fræðslunefnd Hafnarfjarðarbæjar í vikunni.

Í fyrirspurninni kom fram að á þessum tíma ársins færðist það í aukana að börn væru að leik úti og þar væru leiksvæði með ærslabelgjum vinsæl. Það hafi ekki liðið á löngu áður en skemmdarverk áttu sér stað og búið var að skera gat á belgina en það sem vakti meiri óhug meðal foreldraráðsins var eftirlitsleysið. Mörg börn óttist að fara á svæðið vegna stríðni og ofbeldis sem þar þrífst og að foreldrar sem fylgi börnum sínum á svæðin séu oft varnarlausir gagnvart dónaskap og ógnandi hegðun ungmenna.

Fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti að vísa beiðninni til umhverfis- og framkvæmdasviðs.

„Maður hefur heyrt af dæmum þar sem verið er að keyra yfir belgina á rafskútum og skellinöðrum, á öðrum stöðum er verið að skera á belgina og eyðileggja þá. Þar sem það myndast oft hópar á þessum svæðum er meiri hætta á ofbeldi og stríðni og við höfum orðið vör við kvartanir á fjölmörgum hverfasíðum um að krakkar þori ekki lengur að fara út. Foreldrar séu jafnvel að fá hortug svör þegar þeir mæti á svæðið,“ segir Kristín.

Kristín segir að það hafi sýnt sig að þar sem eftirlitskerfi sé til staðar sé ólíklegra að vandræði komi upp.

„Alls staðar sem börn hópast saman án eftirlits er hætta á þessu. Sem betur fer er eftirlitskerfi á nokkrum stöðum og við vildum ítreka að það yrði komið upp á þessum stöðum þar sem það vantaði. Þótt að ég hafi ekki tölfræði hjá mér eru líkur á því að með eftirliti komi ákveðinn fælingarmáttur þegar kemur að skemmdarverkum,“ segir Kristín og heldur áfram:

„Þetta er ekki hugsað til þess að það sé einstaklingur sem sitji yfir þessu allan liðlangan daginn, heldur til þess að draga úr líkum á skemmdarverkum og að hægt sé að skoða hvað það er ef eitthvað fer úrskeiðis.“