Kóróna­veirufar­aldurinn heldur á­fram að valda miklum skaða á Ind­landi en margir hafa nú kallað eftir því að for­sætis­ráð­herrann Nar­endra Modi grípi til alls­herjar­út­göngu­banns í ljósi stöðunnar. Þeirra á meðal er Ant­hony Fauci, einn helsti ráð­gjafi banda­rískra stjórn­valda í smit­sjúk­dómum.

„Þið verðið að loka,“ sagði Fauci í við­tali hjá ABC í gær en hann sagði nauð­syn­legt að koma í veg fyrir frekari út­breiðslu. Hann vísaði til þess að rúm­lega helmingur ríkja Ind­lands hafi gripið til hertra að­gerða síðast­liðna daga en það væri ekki nóg. Samhliða bólusetningum væri síðan hægt að slaka á aðgerðum.

Ind­versku lækna­sam­tökin, IMA, gáfu það út um helgina að þau hafi síðast­liðnar vikur kallað eftir al­gjöru út­göngu­banni á Ind­landi en þau telja að slíkt út­göngu­bann þyrfti að vara í um 10 til 15 daga svo heil­brigðis­kerfið geti náð sér. Að mati IMA hafa að­gerðir ein­stakra ríkja ekki skilað árangri.

Útgöngubann sé neyðarúrræði

Modi hefur áður gefið það út að út­göngu­bann ætti að­eins að vera rætt sem neyðar­úr­ræði og hefur leyft yfir­völdum ein­stakra ríkja leyfi til að út­færa að­gerðir til að bregðast við út­breiðslu veirunnar. Að því er kemur fram í frétt CNN hafa 24 af 36 ríkjum Ind­lands gripið til út­göngu­banns og síðast­liðna viku hafa að­gerðir verið fram­lengdar eða hertar víða.

Ind­versk yfir­völd hafa áður gripið til alls­herjar­út­göngu­banns en í mars í fyrra, þegar að­eins 500 til­felli smits voru skráð og 10 dauðs­föll til­kynnt, var út­göngu­bann sett á með nokkurra klukku­stunda fyrir­vara. Efna­hags­kerfi landsins varð þá fyrir miklu höggi og reyndu margir að yfir­gefa landið.

Milljón dauðsföll í ágúst

Heil­brigðis­yfir­völd greindu frá því að rúm­lega 336 þúsund ný til­felli hafi greinst síðast­liðinn sólar­hring en þetta er í fyrsta sinn sem færri en 400 þúsund smit greinast frá 6. maí síðast­liðnum. Þá voru skráð dauðs­föll 3.754 talsins en þar áður höfðu skráð dauðs­föll verið fleiri en fjögur þúsund tvo daga í röð.

Eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 22,7 milljón manns greinst með veiruna á Ind­landi auk þess sem rúm­lega 246 þúsund and­lát hafa verið skráð. Talið er að raun­veru­legur fjöldi til­fella og dauðs­falla sé hærri en opin­berar tölur gefa til kynna og er á­ætlað að með þessu á­fram­haldi muni dauðs­föll verða ein milljón í ágúst.

Nýtt af­brigði veirunnar, B 1.617, er nú veru­lega út­breitt á Ind­landi en um er að ræða af­brigði sem er tölu­vert meira smitandi en upp­runa­lega kóróna­veiran sem veldur CO­VID-19 sjúk­dóminum.