Leið­togar frum­byggja í Kanada hafa kallað eftir því að Elísa­bet breta­drottning og höfuð bresku kirkjunnar biðjist form­lega af­sökunar vegna fjölda­morðs á skóla­börnum af frum­byggja­ættum, en fjölda­gröf fannst fyrir rúmu ári í borginni Kamloops í Kanada. BBC greinir frá þessu.

Nú stendur yfir heim­sókn Karls prins af Wa­les og eigin­konu hans Kamillu her­togynju af Cornwall og hafa frum­byggja­leið­togar í Kanada beðið Karl um af­sökunar­beiðni fyrir hönd Elísa­betu drottningar vegna fjöldamorðanna.

Breska konungs­fjöl­skyldan hefur aldrei beðist af­sökunar vegna málsins, en erki­biskupinn af Kantara­borg Justin Welby baðst ný­lega af­sökunar í opin­berri heim­sókn til Kanada fyrir hönd ensku biskupa­kirkjunnar.

Á ní­tjándu og tuttugustu öld voru börn af frum­byggja­ættum skylduð í ríkis­rekinn skóla í Kanada, en þetta var gert til þess að að­laga börnin að vest­rænni menningu. Börnin sem fundust í fjölda­gröfinni voru nemendur í Kamloops Indina Resi­denti­al sem var sérstakur skóli fyrir börn af frum­byggja­ættum í Bresku-Kólumbíu í suð-vesturhluta Kanada.

Um var að ræða stærsta kaþólska skólann í Bresku-Kólumbíu á sínum tíma, en yfir 500 nemendur voru skráðir í hann á sjötta áratugnum. Skólanum var lokað árið 1978 en samkvæmt skáningarblöðum hjá borginni Kamloops var andlát barnanna aldrei skráð.