Ríkis­stjóri Kali­forníu, Gavin New­som, dró í dag til baka á­ætlanir ríkisins um að opna veitinga­staði, bari, spila­sali, dýra­garða og kvik­mynda­hús að hluta.

Til stóð að draga úr sam­komu­- og útgöngubanni ríkisins en kórónu­veiru­smitum í Kali­forníu fjölgar á hverjum degi. Um 8,000 smit greinast daglega í Kali­forníu, sem er tvö­falt fleiri smit á dag en í síðasta mánuði. Alls hafa 331,626 smit greinst í Kali­forníu og yfir 7,000 manns látist af völdum CO­VID-19

Ríkis­stjórinn til­kynnti einnig um frekari lokanir í að minnsta kosti 30 sýslum ríkisins en þar verður líkams­ræktar­stöðvum, bænahúsum, rakara­stofum og verslunar­mið­stöðvum einnig lokað.

„Við erum að fara aftur í breytt fyrir­komu­lag af upp­runa­lega út­göngu­banninu okkar,“ sagði New­som á blaða­manna­fundinum í dag en The New York Times segir frá. „Þetta er enn­þá ban­vænn sjúk­dómur,“ sagði hann enn fremur.

Stór­borgirnar Los Angeles og San Diego til­kynntu einnig í dag að allt skóla­hald í borgunum tveimur mun fara fram með raf­rænum hætti í haust. Á­kvörðunin mun hafa á­hrif á 825,000 nem­endur en einn þriðji af ölum kórónu­veiru­smitum ríkisins eru í þessum tveim borgum. Borgar­yfir­völd sögðu ákvörðina vera tekna til þess að vernda nem­endur og starfs­fólk.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu.
Ljósmynd/EPA