Veðurstofan spáir austan 10-15 m/s og stöku skúrum eða éljum í dag, en vindur á að vera hægari og það verður víða léttskýjað norðan- og austanlands. Hiti verður um frostmark, en í innsveitum fyrir norðan gæti hitinn farið allt niður í níu stiga frost.

Í nótt gengur í austan storm, 15-25 m/s, fyrst syðst, þar sem verður hvassast, með rigningu á láglendi en slyddu eða snjókomu um norðanvert landið. Um leið hlýnar í veðri. Það lægir talsvert um hádegi á morgun, fyrst sunnantil. Síðdegis á morgun ætti að vera suðlæg átt, 5-13 m/s, úrkomulítið og að kólna aftur, en seint annað kvöld verður vaxandi suðaustanátt.

Í athugasemd veðurfræðings er varað við storminum í kvöld og nótt og bent á að það verði varhugavert ferðaveður. Það er útlit fyrir hríð á fjallvegum um allt land með lélegu skyggni. Undir Eyjafjöllum verða austan 20-25 m/s í nótt, með hviðum sem fara upp í um 40 m/s.

Víðast hvar er ágæt færð á þjóðvegum í dag, fyrir utan hálku, hálkubletti og nokkra snjóþekju.

Færð í öllum landshlutum

Suðvesturland: Vegir eru víða auðir, þó eru hálkublettir m.a. á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði - og hálka m.a. á Bláfjallavegi og Krýsuvíkurvegi.

Vesturland: Víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja.

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum.

Norðurland: Víða nokkur hálka, einkum á útvegum. Þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi og ófært er um Dalsmynni.

Norðausturland: Víðast snjóþekja eða hálka en þó þæfingsfærð á Tjörnesi og þungfært á köflum innansveitar í Vopnafirði.

Austurland: Hálka inn til landsins en víða hálkublettir eða greiðfært með ströndinni.

Suðausturland: Snjóþekja er á veginum frá Vík austur að Núpsstað en hálkublettir eða greiðfært þar austan við.

Suðurland: Greiðfært er að mestu á Þjóðvegi 1 en þó einhverjir hálkublettir. Víða er nokkur hálka á öðrum vegum.