Allt bendir til þess að úrskurði bandarísks hæstaréttar frá árinu 1973, Roe gegn Wade, verði hnekkt í júnímánuði. Dómurinn er grundvöllur heimilda til þungunarrofs í Bandaríkjunum og eitt helsta hitamál bandarísku menningarstríðanna.

Í byrjun maí var gögnum lekið til bandarískra fjölmiðla, sem innihéldu álit íhaldssama Hæstaréttardómarans Samuels Alito á úrskurðinum.

Þar álítur Alito niðurstöðu Hæstaréttar frá 1973 ekki standast lög. Niðurfelling Roe gegn Wade hefur verið eitt helsta baráttumál Rebúblikana í áratugi. Jafnréttissinnar telja um að ræða eina helstu afturför í kvenfrelsi i Bandaríkjunum í 50 ár.

Fleiri mál á dagskrá

„Við vitum að þessir áhrifamiklu hópar sem hafa barist hér fyrir takmörkun þungunarrofs eru með fleiri mál á dagskrá, þetta eru ekki bara þungunarrofsmálin heldur alls konar sjálfsákvörðunarréttur kvenna í öðrum málum, eins og með getnaðarvarnirnar og líka réttindi trans fólks,“ segir Birna Anna Björnsdóttir rithöfundur sem búsett er í New York.

„Þetta er allt á umræðustigi og svona mál eru á dagskrá þessara hópa. Þetta er ekki bara gripið úr lausu lofti.“

Birna Anna segir að hjá þeim hópum sem muni ná því í gegn í júní að fella Roe gegn Wade úr gildi, sé aðeins um að ræða áfangasigur.

„Þetta er ekki búið hjá þeim. Við gætum mögulega séð takmarkanir á getnaðarvörnum,“ segir hún. „Svo er verið að tala um önnur réttindi kvenna almennt. Að í þessum eldrauðustu fylkjum sé verið að tala um að kona þurfi leyfi eiginmanns til að fá aðgengi að getnaðarvörnum,“ segir hún.

Skrifa eiginmenn upp á kreditkort?

„Og ef það er hægt að svína því einhvern veginn í gegn, þá spyr fólk hvað næst? Þurfa konur aftur að fara í það að eiginmaður skrifi upp á að þær fái kreditkort? Þetta er alveg í umræðunni hérna.“

„Þetta er ekki búið hjá þeim. Við gætum mögulega séð takmarkanir á getnaðarvörnum,“ segir Birna Anna Björnsdóttir rithöfundur sem búsett er í New York.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Hún leggur áherslu á að hér sé ekki um vilja almennings að ræða, heldur sé þessum breytingum náð fram með bellibrögðum fulltrúa íhaldsins.

„Í nýrri Gallup-könnun kom fram að tveir þriðju Bandaríkjamanna, í öllum fylkjum, vilja ekki að Roe gegn Wade verði fellt úr gildi,“ segir hún. „Önnur Gallup könnun sýnir að 8 af hverjum 10 í öllum fylkjum, vilja leyfa þungunarrof, kannski með takmörkunum. Það er meirihluti allra Bandaríkjamanna, sem mér finnst mikilvægt að komi fram. Þjóðin er ekki svona, heldur er þetta vilji valdamikils minnihluta sem hefur tekist að ná þessum málum í gegn.“

Kaldur veruleiki framundan

Hún telur kaldan veruleika bíða kvenna í rauðum fylkjum frá og með júnímánuði. „Þær munu þurfa að fara á milli fylkja ef þær vilja fara í þungunarrof. Það er langerfiðast fyrir konurnar sem eru verst settar,“ segir hún.

„Svo getur verið að þeir komi líka á lögum þar sem þetta verður saknæmt. Það er þegar búið að setja á þessar takmarkanir í Texas, til dæmis. Þar er saknæmt að aðstoða einhvern við þetta.

Ef einhver keyrir konu á staðinn getur viðkomandi verið ákærður,“ segir Birna Anna. „Hræðileg regla sem var komið á í Texas, er að fólk er hvatt til að tilkynna svona, og fær jafnvel peninga fyrir, ef það kemur með ábendingu. Þarna er verið að búa til ógnvekjandi samfélag tortryggni.“