Nýliðinn janúar var kaldasti janúarmánuður á landsvísu á þessari öld. Hæsti hiti mánaðarins mældist rúmlega 14 stig á Dalatanga og lægstur mældist hann -23,5 stig við Setur sunnan Hofsjökuls. Meðalhiti var -1,8 stig í Reykjavík og -1,5 stig á Akureyri.
Þá eru fjörutíu og sex ár liðin síðan fleiri sólskinsstundir mældust síðast í höfuðborginni í janúar og á Akureyri mældust 2,5 sólskinsstundir í mánuðinum, sem er fjórum stundum undir meðallagi.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að fyrri hluti mánaðarins hafi verið mjög kaldur á öllum spásvæðum vestari helming landsins, að undanskildum Vestfjörðum. Janúar hafi því verið sá kaldasti á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra.
Þá voru alhvítir dagar tuttugu og tveir í höfuðborginni, sem er tíu dögum oftar en í meðalári, og átján á Akureyri, sem eru fjórum færri en í meðalári. Þá var jörð alauð þrjá morgna í Reykjavík í janúar en einungis einn morgun á Akureyri.
Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að snarpir og varasamir sviptivindar komi til landsins með hlýju lofti á morgun frá klukkan níu og fram yfir hádegi á norðanverðu Snæfellsnesi og í Ísafjarðardjúpi. Eins á Norðurlandi frá um klukkan ellefu og þar til síðdegis. Einkum vestan til í Eyjafirði norðan Akureyrar og á Tröllaskaga.
