Hitatölur voru áfram víða háar í gær á norður- og austurlandi, þar sem börn örkuðu í skólastofur snemma morguns í hátt í 20 gráðum. Á Reyðarfirði hefur veðrið leikið við íbúa og á þriðjudag var samfelld sól frá morgni til kvölds. Skólastarfið er hafið og börn og kennarar nutu sólarinnar og fór kennsla að mestu fram utandyra. Þegar leið á daginn fóru þó menn að leita inn í svalann í skólastofum, enda hitinn nánast eins og við miðbaug.

Fleygiferð niður vatnsrennibrautina veitir tímabundna svölun frá hitanum.

Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Reyðarfjarðar, segir í samtali við Fréttablaðið að Austfjarðaþokan hafi tekið á móti nemendum í gær, en þegar létti til um hádegi hafi kennslan færst aftur út. „Um hádegi létti til svo um munaði og þá útbjuggu kennarar vatnsrennibrautir í brekkunni ofan við skólann og fóru margir, bæði nemendur og kennarar, marga salíbununa niður eftir ísköldu vatninu,“ segir hún, ánægð að heimta nemendur til baka eftir sumarfrí.

Ofurhugarnir mynda einfalda röð fyrir framan þverhnípið.

Í Mývatnssveit var hitinn einnig mikill og við Jarðböðin minnti stemningin frekar á baðströnd við Tenerife. Samkvæmt upplýsingum þaðan böðuðu gestir sig bæði í sólinni sem og lóninu. Það var bros á hverju andliti.

Stórsöngvarinn Magni Ásgeirsson var léttklæddur í berjamó í Vaðlaheiði þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Það er allt blátt hérna,“ segir hann. Magni er með annan fótinn austur á Borgarfirði og hefur nánast bara upplifað gott sumar. „Ég hef ekki sofið undir sænginni minni í svona sex vikur. Dúnsængin hefur fengið að víkja. Þetta er búið að vera algjörlega galið.“

Jarðböðin í Mývatnssveit minntu einna helst á sólarströnd.

Hann rölti með sinn yngsta í leikskólann rúmlega átta í gær og hitinn var þá kominn í 22 gráður. „Ég opnaði dyrnar og fékk nákvæmlega sömu tilfinningu og þegar maður er úti á Spáni. Ég gekk nánast á vegg. Sjóðheitan hitavegg.“

Það er ekki furða að Magni hafi ekki getað sofið með sæng undanfarnar sex vikur.