Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, segir áhyggjuefni að fólki á örorku- og endurhæfingalífeyri hafi fjölgað um 4.300 manns á nokkrum árum.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag lagði Bjarni fram minnisblað um framlög til almannatrygginga. Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að framlögin hafa nær tvöfaldast frá árinu 2013 miðað við verðlag hvers árs og nema nú 642 þúsund krónum á hvern landsmann aldrinum 18-67 ára.

Öryrkjabandalagið birti nýverið auglýsingu þar sem segir að bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað frá árinu 2007 og að í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hafi ekkert verið gert til að breyta því. Auglýsingin, sem sjá má hér að neðan, sýnir mann skreyta köku, en Bjarni er einmitt þekktur fyrir færni sína í því.

Bjarni segir í færslu á Facebook að bregðast þurfi við fjölgun þeirra sem eru á örorkubótum. „Ég heyri ákall Öryrkjajabandalagsins um að hækka bætur enn frekar. Myndband þeirra er hins vegar misheppnað, þótt kakan sé falleg eftirmynd af þeirri sem ég gerði. Það dugar ekki til, því það er rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið,“ segir Bjarni. „Kakan hefur stækkað og almannatryggingar hafa fengið stærri sneið af stækkandi köku. Um það vitna staðreyndir. Og við tókum 4 milljarða til hliðar til að styrkja þessi kerfi enn frekar á þessu kjörtímabili. Enn er óráðstafað um fjórðungi þeirrar fjárhæðar en um að að ræða varanlega 4 milljarða hækkun á þessum lið almannatrygginga.“

Helsta áhyggjuefnið sé að ekki verði hægt að styðja nægilega við þá sem eru í mestri þörf ef sífellt hærra hlutfall landsmanna þiggi bætur. „Eftir því sem þessi staða versnar dregur úr getu okkar til að standa myndarlega við bakið á þeim sem aldrei fengu tækifæri í lífinu eða urðu fyrir áföllum og þurfa á stuðningi að halda.“

Það er mikið áhyggjuefni að á örfáum árum hafi þeim sem eru á örorkubótum eða endurhæfingalífeyri fjölgað um 4.300...

Posted by Bjarni Benediktsson on Wednesday, October 28, 2020