Forseti Íslands afhenti Þjóðminjasafni Íslands fyrir skemmstu hin íslensku safnaverðlaun 2020, fyrir árangur í tengslum við nýja Varðveislu og rannsóknarmiðstöð Þjóðminjasafns Íslands og handbók um varðveislu þjóðminja. Miðstöðin var vígð á síðasta ári og samkvæmt þjóðminjaverði eru ný viðmið á sviði þjóðminjavörslu og safnastarfs sett með starfseminni.

„Þetta er mikil hvatning og við metum mikils að fá þessa viðurkenningu frá fagaðilum á sviðinu,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður. „Margir hafa komið að þessum stóra áfanga og lagt blóð, svita og tár í það.“

Í Miðstöðinni er sérútbúið húsnæði til varðveislu og rannsókna með varðveislurýmum, með hita og rakastillingum, rannsóknar- og kennsluaðstöðu og forvörsluverkstæðum. Þar er vel hugað að öryggi, svo sem bruna-, jarðskjálfta- og innbrotsvörnum. Áður var stór hluti safnkostsins í bráðabirgðaaðstöðu sem ekki uppfyllti faglegar kröfur.„Já, þrengslin voru of mikil, varnir ekki nægar og ekki hægt að stýra varðveisluskilyrðum eins og nú. Nú á hver hlutur sinn stað og við kjöraðstæður“ segir Margrét.

„Í Miðstöðinni er aðstaða til rannsókna og sérhæfðrar forvörslu.“Nefnir hún sem dæmi að viðkvæmar fornleifar sem þar geta strax farið viðeigandi meðferð í sérútbúinni aðstöðu með tækjabúnaði til þess tryggja varðveisluna. Svo sem ef víkingasverð finnst þá geti það farið strax í þurra geymslu til að það hrörni ekki. Einnig væri hægt að mynda það á staðnum, en ekki leita til annarra eins og oft þurfti áður.Margrét segir verkefnið eiga sér langan aðdraganda.

Árið 2013 hafi verið mörkuð stefna um málið og síðan var ákveðið með nýtt húsnæði árið 2015. Þá var hafist handa við að koma öllu rétt fyrir. Hefur flutningur, flokkun og frágangur safnkostsins staðið yfir frá árinu 2016, meðal annars jarðfundinna gripa og hvers kyns fornmuna, mynda- og þjóðháttasafn og muni tengda húsasafninu, sem er um allt land.„Það er mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni og því er Miðstöðin á þremur stöðum og þar fyrir utan er mikilvægur hluti til sýnis í Þjóðminjasafninu og Safnahúsinu og í láni hjá öðrum viðurkenndum söfnum um landið.“ segir Margrét. „Þjóðminjarnar eru ómetanlegar og því fylgir mikil ábyrgð varðveita það einstaka frumheimildasafn um líf fólks allt frá landnámi við réttar aðstæður um ókomna tíð.“