Kaffi­barinn hefur verið heiðraður af evrópsku kvik­mynda­akademíunni sem dýr­mætur töku­staður í evrópskri kvik­mynda­sögu. Hug­mynd akademíunnar er að vekja at­hygli á töku­stöðum sem eru tákn­rænir fyrir evrópska kvik­mynda­gerð og veita þeim viður­kenningu.

Kaffi­barinn var valinn á Ís­landi fyrir hlut­verk sitt í 101 Reykja­vík en frum­raun Baltasar Kormáks sem leik­stjóri hefur hlotið fjöldann allan af verð­launum á kvik­mynda­há­tíðum víðs­vegar um heim.

„Þessi viður­kenning markar upp­haf þess að Evrópsku kvik­mynda­verð­launin verða haldin hér á landi í Hörpu, 10. desember næst­komandi. Mikill heiður fylgir því að fá að halda há­tíðina en annað hvert ár er hún haldin í Ber­lín en þess á milli í öðrum evrópskum borgum,“ segir í til­kynningu.

Kaffibarinn eitt af kennileitum borgarinnar

„101 Reykja­vík er ein af perlum ís­lenskrar kvik­mynda­sögu og hróður hennar hefur borist um allan heim. Það er gaman að heiðra Kaffi­barinn í dag, hann er ekki síður menningar­fyrir­bæri á Ís­landi. Hann er fyrir löngu orðinn eitt af kenni­leitum borgarinnar, að­dráttar­afl fyrir ferða­menn og ég held nú líka að ansi margir Ís­lendingar eigi sína eigin Kaffi­bars­sögu,” segir Lilja Dögg Al­freðs­dóttir, menningar- og við­skipta­ráð­herra.

„Kvikmyndin 101 Reykjavík þykir einstök aldamótalýsing á Reykjavík, byggð á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar. Sérstök efnistök og óhefðbundin samskipti kynjanna undir dúndrandi tónlist eru talin eiga stóran þátt í velgengni kvikmyndarinnar,“ segir einnig í tilkynningunni.

Megi búast við kvikmyndaveislu í desember

„Það er mikill heiður að Kaffi­barinn fái þessa viður­kenningu frá Evrópsku kvik­mynda­akademíunni. Þegar kvik­myndin 101 Reykja­vík kom út var Kaffi­barinn aðal­staðurinn og þar hittumst við Hall­grímur Helga­son reglu­lega. Þetta var heimili að heiman og fasta­gestir tóku að sér að leika í kvik­myndinni. Það er virki­lega gaman að Kaffi­barinn skuli enn lifa góðu lífi eftir öll þessi ár. Það felast mikil tæki­færi í því að Evrópsku kvik­mynda­verð­launin skulu vera haldin í Reykja­vík í ár og megum við búast við mikilli kvik­mynda­veislu í desember“, segir Baltasar Kormákur, leik­stjóri.

Á meðal töku­staða sem hafa verið heiðraðir má nefna bóka­búðina í kvik­myndinni Notting Hill, kaffi­húsið Café des Deux Moulins í Améli­e, Trevi gos­brunnurinn í Róm sem spilaði stórt hlut­verk í La Dolce Vita og kvik­mynda­húsið Círcu­lo de Bellas Artes í Madríd sem hefur komið fyrir í kvik­myndum Pedro Almodóvar eins og Konur á barmi tauga­á­falls.