„Það er ýmislegt sem fylgir köfunarstarfseminni og gestunum sem verður óvart eftir,“ segir Jóna Kolbrún Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í dag verður gjáin Silfra hreinsuð.

Slík allsherjar hreinsun mun ekki hafa farið fram áður að því er Jóna kveðst vita best. Þeir sem starfa við Silfru hafi þó tekið með sér ýmislegt tilfallandi úr gjánni. Dæmigert rusl séu teygjur og fit sem fólk missi af sér. Einnig þyngdarlóð. „Það hefur komið fyrir að gopro-myndavélar enda á botninum,“ upplýsir hún.

Að sögn Jónu fer hreinsunin fram að frumkvæði samtakanna BeachcleanupIceland og á vegum köfunarfyrirtækisins dive.is sem er með starfsemi við Silfru. Jóna segir að þeir sem hafi köfunarréttindi muni kafa og tína rusl úr gjánni og annar hópur muni hreinsa rusl í kringum gjána. „Við munum öll hjálpast að við að tína og koma ruslinu á rétta stað.“